Óbreyttur starfsmannafjöldi hjá forsetaembættinu

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Sigurður Bogi

Átta manns starfa hjá skrifstofu forseta Íslands, níu ef sjálfur forsetinn er talinn með. Starfsmannafjöldinn hefur haldist óbreyttur í marga áratugi en allir þeir sem starfa núna fyrir embættið hófu störf í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar.

Ólafur Ragnar lætur af embætti 1. ágúst þegar Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands. Hingað til hafa ekki orðið neinar breytingar á starfsliði forsetaembættisins við forsetaskipti en á móti kemur að afar sjaldan hefur verið skipt um forseta.

Fjórir starfsmenn hafa aðsetur á skrifstofu forseta Íslands á Staðastað við Sóleyjargötu í Reykjavík. Það eru forsetaritari, skrifstofustjóri og tveir deildarstjórar. Forsetaritari er Örnólfur Thorsson og er hann skipaður til fimm ára í senn, ráðningasamningur hans endurnýjaðist síðast 1. janúar í ár. Örnólfur hefur gegnt starfi forsetaritara frá 1. janúar 2006 en hann var ráðinn sérfræðingur á skrifstofu forsetans árið 1999 og var skrifstofustjóri frá 2003 til 2006.

Á Bessastöðum eru aðrir fjórir starfsmenn; staðarhaldari, umsjónarmaður fasteigna, ráðsmaður og bílstjóri forsetans. Ráðsmaðurinn hefur einnig umsjón með Bessastaðakirkju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert