Fitnessmaður efstur á lista

Sigurkarl Aðalsteinsson er lengst til vinstri á myndinni.
Sigurkarl Aðalsteinsson er lengst til vinstri á myndinni. Kristján Kristjánsson

Sigurkarl Aðalsteinsson, fitnessmaður, var með 1,772 milljónir á mánuði í tekjur á síðasta ári samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Hann er efstur af íþróttamönnum og þjálfurum.

Með næsthæstu tekjurnar er Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR en hann var með 1,280 milljónir á mánuði. Þriðja á listanum er Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ með 1,188 milljónir á mánuði.

Gunnar Nelson, bardagaíþróttamaður er í tíunda sæti á listanum með 865 þúsund krónur. Fyrir ofan hann ætti Heimir Hallgrímsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandliðsins í knattspyrnu, að vera en hann er á finna á lista yfir lækna og tannlækna þar sem hann sinnir einnig því starfi. Hann var með 955 þúsund krónur á mánuði í tekjur á síðasta ári.

Jón Ragnar Jónsson, fyrrverandi knattspyrnumaður í FH, var með 438 þúsund krónur á mánuði. Kári Steinn Karlsson, maraþonhlaupari, var með 430 þúsund á mánuði og Hannes Hlífar Stefánsson, skákmaður, var með 310 þúsund krónu á mánuði.

Neðst á listanum, eða í sæti áttatíu, er Helena Sverrisdóttir, körfuknattleikskona, með 138 þúsund krónur á mánuði.

Í blaðinu er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.

Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. „Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert