Kjaradeilan fer fyrir gerðardóm

Flugumferðarstjórar að störfum í flugturninum í Reykjavík. Myndin er úr …
Flugumferðarstjórar að störfum í flugturninum í Reykjavík. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kjaradeila flugumferðarstjóra og Isavia fer nú fyrir gerðardóm, eftir að flugumferðarstjórar felldu kjarasamninginn í atkvæðagreiðslu. Gerðardómur hefur boðað deiluaðila á fund sinn á miðvikudag, þar sem þeim gefst kostur á að skila inn greinargerð í málinu.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is það vonbrigði að kjarasamningurinn hafi verið felldur. „Við vorum bjartsýn á að þetta yrði samþykkt.“

Kosn­ingu fé­lags­manna í Fé­lagi flug­um­ferðar­stjóra lauk á miðnætti. 60,2% greiddu atkvæði gegn samningnum en 39,8% vildu samþykkja hann. Var samningurinn því felldur. Um níu­tíu pró­sent fé­lags­manna tóku þátt í at­kvæðagreiðslunni.

Frétt mbl.is: Flugumferðarstjórar felldu samninginn

Samn­inga­nefnd­ir deiluaðila, flug­um­ferðar­stjóra og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins fyr­ir hönd Isa­via, skrifuðu und­ir kjara­samn­ing­inn í húsa­kynn­um rík­is­sátta­semj­ara fyr­ir rúmri viku, eft­ir löng og ströng funda­höld. Átti samn­ing­ur­inn að gilda til árs­loka 2018.

Var samn­ing­ur­inn kynnt­ur fé­lags­mönn­um síðasta þriðju­dag og í kjöl­farið var kosið um hann. Lágu niður­stöðurn­ar fyr­ir í morg­un.

Ákveði kaup og kjör fyrir 18. júlí

Alþingi setti í síðasta mánuði lög á yf­ir­vinnu­bann flug­um­ferðar­stjóra. Sam­kvæmt lög­un­um var gerðardómi gert að út­kljá kjara­deil­una hefðu deiluaðilar ekki náð samn­ing­um fyr­ir 24. júní síðastliðinn. Skal gerðardóm­ur þá ákveða kaup og kjör flug­um­ferðar­stjóra fyr­ir 18. júlí næst­kom­andi. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bind­andi með sama hætti og um kjara­samn­ing milli aðila væri að ræða og með gild­is­tíma sem gerðardóm­ur ákveður.

Gerðardómur skal við ákvarðanir um laun og önnur starfskjör flugumferðarstjóra fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu misseri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert