„Líður eins og ég sé kominn heim“

Lars Lagerbäck og íslenska karla landsliðið í knattspyrnu í kvöld.
Lars Lagerbäck og íslenska karla landsliðið í knattspyrnu í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lars Lagerback, fráfarandi þjálfari íslenska knattspyrnulandsliðsins, var hrærður yfir viðtökunum sem liðið fékk þegar heim var komið frá Frakklandi. Svo mikill var fjöldinn að það var maður við mann alla leiðina niður Skólavörðustíg og Bankastrætið að Arnarhól þar sem fleiri þúsundir manna fögnuðu innilega þegar rauða tveggja hæða rútan birtist mannhafinu.

Lars byrjaði á því að þakka starfsmönnum KSÍ fyrir þeirra framlag. Sagði hann að hópur karla og einnar ótrúlegrar konu hefði unnið hörðum höndum að því að láta ævintýrið ganga upp og vísaði þar til Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ.

„En það sem ég hef séð hér í dag er tilkomumeira en það sem ég sá í París. Stuðningurinn er ótrúlegur,“ sagði Lars. Lars er á förum frá Íslandi og drap hann aðeins á því án þess að ræða brotthvarf sitt sérstaklega. Hann sagði Icelandair eina flugfélagið sem hann hefði flogið með sem segði „Velkomin heim!“ við komuna til landsins.

„Og alltaf þegar ég er hér líður mér eins og ég sé kominn heim,“ sagði Lars. Þjóðin klappaði innilega fyrir Lars og framlagi hans í þágu íslenskrar knattspyrnu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert