Flugturninn „nánast mannlaus“

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Flugvél sem átti að taka á loft frá Keflavíkurflugvelli um níuleytið í morgun varð að fresta flugtaki vegna ástands mála í flugturni. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er líklegt að ekki hafi tekist að fá afleysingafólk fyrir flugumferðarstjóra í flugturninum. 

Samkvæmt heimildum mbl.is tilkynnti flugstjórinn farþegum að flugturninn væri nánast mannlaus og því þyrfti vélin að bíða úti á flugbraut í einhvern tíma.

Þjónusta á flugvellinum verður takmörkuð á ákveðnum tímum í dag við sjúkra- og neyðarflug til að þeir flugumferðarstjórar sem eru á vakt geti tekið nauðsynlega hvíld og farið í mat. Tímarnir eru frá 9 til 9.30, 11 til 11.30 og 14 til 14.30.

Takmarkanir á sjónflugi á flugvellinum verða líka á milli 7 og 17 í dag. Þetta þýðir að kennslu- og einkaflug á vellinum liggur niðri.

Samkvæmt Isavia hefur þetta ástand aðeins áhrif á eina og eina vél og helst millilanda- og áætlunarflug því í eðlilegu horfi. Svipað ástand hefur áður komið upp vegna veikinda flugumferðarstjóra þegar ekki hefur tekist að manna vaktir.

Flugumferðarstjórar felldu nýjan kjarasamning fyrr í mánuðinum og mun gerðardómur ákvarða launakjör þeirra.

Frétt mbl.is: Kjaradeilan fer fyrir gerðardóm

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert