Á von á stuðningi framsóknarmanna

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afdráttarlausari stuðningur virðist vera við búvörusamningana innan raða Framsóknarflokksins en Sjálfstæðisflokksins sé litið til ríkisstjórnarflokkanna tveggja. Frumvörpin eru nú hjá atvinnuveganefnd Alþingis þaðan sem þau fara í aðra umræðu á þinginu.

„Ég geri ráð fyrir því að þingmenn Framsóknarflokksins styðji það eins og önnur stjórnarfrumvörp,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurður út í stuðning Framsóknarflokksins við búvörusamningana. 

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag munu stjórnarandstöðuflokkarnir kjósa gegn samningunum í óbreyttri mynd.

Guðlaugur Þór Þórðar­son, varaþingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðar­son, varaþingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Guðlaugur Þór Þórðarsson, varaþingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það eigi eftir að ræða búvörusamningana „mjög vel“. Hann segir umræðuna ekki aðeins snúast um búvörusamningana heldur verði að líta á málið í samhengi við fríverslunarsamning við Evrópusambandið um landbúnaðarvörur.

Spurður hvort sjálfstæðismenn komi til með að styðja búvörusamningana í óbreyttri eða breyttri mynd segir Guðlaugur langbest að gefa sér ekki neitt fyrir fram, „byrja á því að ræða hlutina áður en við gefum eitthvað slíkt upp“. Hann segir þó að krafan um ríkisstuðning við landbúnað hér á landi sé eðlileg enda fordæmi fyrir slíku í öllum samanburðarríkjum Íslands.

„Aðalatriðið er að umræðan verði ekki í skotgröfunum. Ef menn mæta viljugir til leiks og nálgast verkefnið með opnum hug er allt hægt. En það gerist ekki nema þeir aðilar sem um þetta ræða og hafa hagsmuna að gæta nálgist umræðuna með þessum hætti,“ segir Guðlaugur.

Eins sé það brýnt að umræðan snúist ekki um það hvort menn séu með eða á móti bændum.„Ég held að bændur, neytendur og landsmenn hafi allir sömu hagsmuna að gæta hvað þetta varðar,“ segir hann.

Ísland búi sig undir stóraukinn innflutning landbúnaðarvara

Segir Guðlaugur nýja samninginn um fríverslun með landbúnaðarvörur milli Íslands og ESB hafa í för með sér stóraukinn innflutning á landbúnaðarvörum og mikilvægt sé að ávinningurinn skili sér til neytenda. Nefnir hann t.a.m. að óásættanlegt sé hvernig Parmesan-ostur er verðlagður hér á landi.

Þá segir hann íslenskan landbúnað búa yfir mörgum sóknarfærum, gæði íslensks landbúnaðar séu mikil, m.a. vegna lítillar notkunar sýklalyfja í kjöti. „Það er augljós eftirspurn eftir slíkum vörum, ekki bara hér á Íslandi heldur einnig annars staðar. Kjöt er ekki það sama og kjöt,“ segir Guðlaugur.

Hann segir að Ísland sé ekki að nýta þau sóknarfæri sem til staðar eru. „Við þurfum að búa okkur undir aukinn innflutning á næstu árum og áratugum. Það þarf ekki að vera ógn, heldur tækifæri,“ segir Guðlaugur og nefnir í því sambandi nýsköpun í úrvinnslu landbúnaðarafurða.

Gunnlaugur nefnir að umræðan í tengslum við Mjólkursamsöluna á undanförnum dögum hafi einkennst af því að fólk vilji aukna samkeppni og fjölbreytni þar sem smærri framleiðendum er gefinn kostur á því að spreyta sig og njóta sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert