Hefur ekki gert upp hug sinn

Elliði Vignisson segist ánægður með stuðninginn.
Elliði Vignisson segist ánægður með stuðninginn. mbl.is/Árni Sæberg

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist ánægður með niðurstöðu könnunar sem stuðningsmenn hans létu gera, en líkt og greint hefur verið frá nýtur Elliði meiri stuðnings meðal sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi  en núverandi oddviti flokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 

Frétt mbl.is: Elliði nýtur 61% stuðnings

„Ég get ekki neitað því að auðvitað er ánægjulegt að finna að maður hefur stuðning og það gildir einu hvort maður er í stjórnmálum eða annars staðar, stuðningur er alltaf hjartfólginn.“

Þjóðhátíð tilvalinn vettvangur 

Hann segist þó ekki hafa gert upp hug sinn varðandi þingframboð, en þrýstingurinn aukist við svona niðurstöðu. „En svona ákvörðun tekur enginn einn. Það er nýbúið að gera annars konar mælingu sem voru kosningar til sveitarstjórnar í Vestmannaeyjum og það var mjög eindreginn stuðningur líka, sem mér þykir ekki síður vænt um.“

Þá standi sveitarstjórn Vestmannaeyja í stórum og vandasömum verkefnum og þar leiði hann meirihluta og sé bæjarstjóri. „Stjórnmál mega aldrei snúast um persónulegan metnað þeirra sem veljast til mikilvægra embætta, svo þessi ákvörðun verður fyrst og fremst tekin út frá verkefnastöðu Vestmannaeyjabæjar.“

Spurður hvenær hann telji sig kynna ákvörðun sína, segist hann hafa gantast með það við vini, samstarfsmenn og fjölskyldu að Þjóðhátíð sé góður vettvangur fyrir slíkt. „Það er kannski tilfinningin sem fylgir frumflutningi þjóðhátíðarlagsins sem er ágætisundirtónn fyrir svona stórar ákvarðanir.“

Óánægður með stöðu flokksins í Suðurkjördæmi

Elliði segir að verði af framboði hans, líti hann ekki svo á að hann fari gegn Ragnheiði Elínu og hafi það því engin áhrif á ákvörðun hans. „Prófkjör snúast ekki um að fólk fari í framboð hvert gegn öðru, heldur snúast þau um það að fólk leggi sjálft sig undir og kanni vilja kjósenda – í þessu tilviki vilja sjálfstæðismanna til þeirra hugmynda sem maður vill standa fyrir. Í stjórnmálum á enginn neitt, hvorki ég né aðrir, þannig að ég myndi í engum tilvikum líta svo á að ef ég færi fram þá væri það einhverjum til höfuðs.“

Inntur eftir því hvort hann sé ánægður með störf Ragnheiðar, svarar Elliði: „Ég er mjög ánægður með margt sem hún hefur gert.“ Hins vegar sé hann óánægður með stöðu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, eins og hann mælist nú. „Mér finnst að Suðurkjördæmi eigi að vera eitt helsta vígi Sjálfstæðisflokksins, eins og löngum hefur verið. Við sjálfstæðismenn eigum sannarlega verk að vinna en það er enginn að segja að það geti ekki einhver annar unnið það en ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert