Lýkur 3.200 km hringferðinni í dag

Jón Eggert Guðmundsson lagði af stað í rúmlega 3200 kílómetra …
Jón Eggert Guðmundsson lagði af stað í rúmlega 3200 kílómetra hjólaferð í kringum landið í byrjun mánaðarins. Ljósmynd/Krabbameinsfélag Íslands

Jón Eggert Guðmundsson, sem hefur hjólað í kringum landið á undanförnum vikum, lýkur hringferðinni í dag þegar hann kemur í mark við Pallettuna kaffikompaní í Hafnarfirði klukkan 18 í dag.

Hann lagði hinn 1. júlí sl. af stað í hringferðina sem telur um 3.200 km. Leiðin lá um alla strandvegi Íslands, eða lengstu mögulegu leið hringinn í kringum landið. Jón ætlaði sér að ljúka hringferðinni á 19 dögum en ferðalagið dróst aðeins á langinn, m.a. vegna hnjámeiðsla sem urðu til þess að hann þurfti að taka sér hvíld í nokkra daga.

Kolbrún S. Ásgeirsdóttir, kynningar- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagsins, segir ferðalag Jóns Eggerts hafa gengið vel þrátt fyrir hnjámeiðslin. Hún segir Jón hafa verið mikinn hollvin Krabbameinsfélagsins um árabil. Hann gekk t.a.m. hringinn í kringum landið fyrir tíu árum, árið 2006, og safnaði fé fyrir félagið.

„Hann er einnig að hjóla þetta í minningu bílstjórans og vinar síns sem fylgdi honum þegar hann gekk þetta árið 2006 en hann lést fyrir nokkrum árum,“ segir Kolbrún.

Jón Eggert fór hringinn einn síns liðs í ár en honum hefur verið vel tekið á leiðinni af vinafólki og ýmsum gististöðum víða um land. „Hann er búinn að fá gistingu alls staðar um landið, fólk hefur viljað leggja honum lið í þessu þó svo að það sé margt um manninn í gistingu þessa dagana á landinu,“ segir Kolbrún.

Sjá einnig: Frétt mbl.is - Hjól­ar hring­veg­inn í minn­ingu vin­ar

Sjá einnig: Frétt mbl.is - Hjól­ar hring­inn rif­beins­brot­inn

Sjá einnig: Frétt mbl.is - Nálg­ast mark með bólgið hné

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert