Nefnir tvö mál sem þarf að ljúka

Sigurður Ingi forsætisráðherra.
Sigurður Ingi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir frumvörp um verðtryggingu og séreignarsparnað vera tvö þeirra mikilvægu mála sem ríkisstjórnin vilji ljúka áður en gengið verður til kosninga. RÚV greinir frá þessu.

Segir Sigurður ekki stefnt að því að afnema verðtrygginguna og verið sé að skoða framlengingu séreignarsparnaðarúrræðisins til húsnæðiskaupa, sem rennur út 1. júlí, þó í flóknari og dýpri útfærslu, „sem gagnast munu fjölda fólks þegar þau verða kynnt.“

Sigurður segir nú unnið á grundvelli niðurstaðna meirihluta verðtryggingarnefndar og snúist sú vinna meðal annars um að stytta lengstu verðtryggðu fasteignalánin, sem eru til 40 ára. „Það er víða á Norðurlöndunum þar sem fólki sem er kannski um fertugt gefst ekki kostur á að taka lengri lán en svo að það verði búið að greiða það upp áður en það fer á ellilífeyri. Það eru svona hugmyndir sem við höfum verið að skoða. Mjög spennandi hlutir.“

Spurður á hvað sé lögð áhersla í þessum frumvörpum, segir Sigurður: „Eins og við höfum áður sagt þá fórum við í vor í gegnum húsnæðismarkaðinn hvað varðar leiguhúsnæði, félagslegt húsnæði og aðra þætti.“

„Við höfum verið með tímabundin úrræði er varða séreignarsparnað sem rennur út 1. júlí 2017 og menn hafa verið að skoða framtíðarfyrirkomulag þess og hvernig það tengist síðan möguleikum á að bjóða upp á óverðtryggð lán og að koma þannig fram og styrkja annars vegar sparnað vegna séreignar og styrkja möguleika fólks til þess að eignast eigið húsnæði. Sérstaklega við fyrstu kaup.“

Ekki náðist í Sigurð Inga við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert