Drögin róttæk breyting á frumvarpinu

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, vonast til að nefndin komist langt …
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, vonast til að nefndin komist langt með vinnu sína við ný búvörulög í þessari viku. mbl.is/Eggert

Atvinnuveganefnd fundaði í morgun um frumvarp að búvörulögum og segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, í samtali við mbl.is að á fundinum hafa verið lögð fram drög að nefndaráliti sem farið var ítarlega yfir.

„Það felur í sér róttækar breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi og nefndarmenn vildu hafa þetta til frekari skoðunar,“ segir Jón og bætir við að nefndin muni hittast aftur á morgun og halda áfram vinnu sinni um önnur atriði málsins.

Jón segir ekki vera tímabært á þessu stigi að greina frá því hvað felist í drögum nefndarálitsins en staðfestir þó að þar verði að finna útfærslu atvinnuveganefndar á gildistíma búvörulaganna og að þar verði líka komið inn á tollasamninginn.

Áður hefur verið haft eftir Jóni að afnám tolla á ostum komi til greina. „Það er undir í þessari skoðun okkar,“ segir Jón og kveðst vonast til að nefndin komist langt með málið í þessari viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert