Góð ráðstöfun að eignast eigið húsnæði

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag að mjög sterkar vísbendingar væru um að til lengri tíma litið væri það góð ráðstöfun fyrir fólk að leggja á það áherslu snemma á lífsleiðinni að eignast eigið húsnæði.

Það væri sjálfsagður valkostur fyrir fólk að halda sig á leigumarkaðinum ef það kysi svo og ef það kysi að taka ekki áhættuna af lántöku eða sveiflum sem geta orðið á húsnæðismarkaði.

„En þá er auðvitað að líta til þess að menn geta verið undirorpnir hættunni af sveiflu í leiguverðinu sem að jafnaði endurspeglar auðvitað bara sveiflur í húsnæðisverði og vöxtum á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Til umræðu var frumvarp hans um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, sem lagt var fram á þingi fyrr í vikunni.

Bjarni benti á að í þeim ríkjum þar sem leigumarkaðurinn væri sterkari en hér á landi, til að mynda í Þýskalandi, virtist það vera svo að í lok starfsævinnar hefði fólk hvorki eignast eigið húsnæði og byggt þannig upp eigin sparnað né heldur fundið leiðir til þess að byggja upp góða eiginfjárstöðu.

„Það er hálfdapurlegt að horfa til þess hver eiginfjárstaða margra heimila í Evrópusambandinu er, sérstaklega þegar litið er til þeirra sem eru komnir að lokum starfsævinnar og eru að hefja töku lífeyris,“ sagði hann.

Sláandi munur væri á eiginfjárstöðu fólks á milli ríkja eftir því hvort leigumarkaðurinn væri stór og útbreiddur eða hvort séreignarstefnan væri ráðandi. „Þetta ættu menn að hafa í huga,“ sagði fjármálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert