Engar eðlisbreytingar þrátt fyrir kreppu

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir það misvísandi að gefa í skyn að frumvarp fjármálaráðherra um losun fjármagnshafta, sem kynnt var fyrr í vikunni, feli í sér aukið frelsi fyrir almenning.

Almenningur hafi ekki fundið mikið fyrir höftunum og frumvarpið muni ekki breyta því að miklu leyti.

Málið sé þó jákvætt, sér í lagi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem þurfi að reiða sig á alþjóðleg samskipti í miklum mæli.

Frumvarpið var til umræðu á Alþingi í dag.

Katrín sagðist fagna frumvarpinu en hún gagnrýndi þó ríkisstjórnina fyrir samráðsleysi í haftamálum. Verkefnið væri flókið viðfangs, en stjórnarandstaðan hefði reynt að greiða fyrir þessum málum á undanförnum árum, þrátt fyrir „algjöran samráðsskort“. Litið hefði verið á málið sem þverpólitískt úrlausnarefni.

Forsjá betri en kapp

Katrín benti þó á að enn væru vandamál til staðar og vísaði til þeirra aflandskrónueigenda sem hefðu ekki tekið þátt í útboði Seðlabankans í sumar og væru nú fastir á læstum reikningum. Upphæðin næmi um 220 milljörðum króna.

Hún sagðist þó sammála því að stíga þyrfti varlega til jarðar við afléttingu hafta. Forsjá væri betri en kapp.

Hún ræddi auk þess lífið eftir höft og sagði að þjóð með sjálfstæðan gjaldmiðil þyrfti að gæta sérstakrar varúðar. „Að sjálfsögðu munum við horfa upp á sviðsmynd þar sem alls konar þjóðhagsvarúðartæki verða til staðar þegar höftunum verður aflétt,“ sagði Katrín.

Þingmenn VG hefðu margoft bent á það og lagt til að mynda áherslu á að settar yrðu reglur um vaxtamunarskipti með íslensku krónuna. 

Gjaldmiðillinn ekki rót vandans

Katrín sagði það mikla einföldun að benda á gjaldmiðilinn sem rót alls vanda. Mörg ríki á evrusvæðinu þyrftu til að mynda að glíma við gríðarlegar sveiflur þrátt fyrir að búa við stóran gjaldmiðil og öflugan og miðlægan seðlabanka. Rót vandans væri að finna annars staðar.

Raunveruleikinn væri þó sá að lítill gjaldmiðill þyrfti ávallt að hafa ákveðið regluverk í kringum sig er varðaði þjóðhagsvarúðartæki. Það væri síðan val okkar hvaða leið yrði farin í þeim efnum.

„En við getum ekki litið framhjá því að síðasta kreppa sem við gengum í gegnum var að stóru leyti kreppa sem var orsökuð í fjármálakerfinu og snerist í rauninni um viðskipti um fjármagn á milli fjármálastofnana,“ sagði Katrín.

Merkilegt væri hve lítið hefði breyst eftir kreppuna. Þrátt fyrir að regluverk hefði verið hert hefðu engar eðlisbreytingar orðið.

Mikið væri rætt um traust á stjórnmálum um allan heim. Ekki væri skrítið að það traust væri í lágmarki á meðan almenningur upplifði það að fjármálaheimurinn lifði sjálfstæðu lífi óháð aðgerðum stjórnmálanna.

„Þessi heimur hefur miklu meiri áhrif á líf fólks en mjög margt sem við stjórnmálamenn gerum,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert