Veruleg fjölgun nauðgunarmála milli ára

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með 125 nauðgunarmál til rannsóknar í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með 125 nauðgunarmál til rannsóknar í fyrra. mbl.is/G.Rúnar

Nauðgunarmálum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk til rannsóknar fjölgaði verulega milli ára 2014 og 2015; úr 71 árið 2014 í 125 í fyrra. Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, segir ekki ólíklegt að fjölgunin tengist aukinni umræðu um kynferðisbrot.

„Það var mikið að gera hér í lok síðasta árs og þá hafði verið mikil umræða í gangi,“ segir Árni Þór og bætir við að þó að umræðan hafi ekki verið jákvæð þá hafi hún ekki komið í veg fyrir að lögreglu bærust kærur vegna gamalla mála.

Þegar hefur 21 málanna verið sent í ákærumeðferð og enn er unnið að rannsókn 34 mála.

„Það er ekki ólíklegt að almenn umræða um kynferðisbrot í samfélaginu verði þess valdandi að einhver sem hefur orðið fyrir broti og ekki gert neitt í því hugsi sinn gang, þó ég geti ekki fullyrt neitt um það.“

Mikill kúfur í kjölfar máls Karls Vignis

Sambærileg fjölgun á nauðgunarkærum átti einnig sér stað á árabilinu 2011-2013. Alls voru 114 nauðganir til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 2013 á meðan að 84 og 81 mál voru til rannsóknar árin 2012 og 2011.

„Það kom hér mikill kúfur í kjölfar máls Karls Vignis Þorsteinssonar á sínum tíma. Öll sú umræða sem varð í þjóðfélaginu í kjölfar þess átti örugglega sinn þátt í að einhverjir ákváðu að stíga fram og tilkynna um gömul brot sem þeir höfðu ekki greint frá áður,“ segir hann.

280 kynferðisbrot voru til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í fyrra samkvæmt ársskýrslu lögreglunnar og bárust flestar tilkynninganna um kynferðisbrot yfir sumarmánuðina. Málin voru ívið fleiri en árið á undan þegar 238 kynferðisbrot voru tekin til rannsóknar, en umtalsvert færri en 2013 þegar brotin voru 416.

Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði um helming

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust að meðaltali um 50 tilkynningar um heimilisofbeldi á mánuði í fyrra, en alls bárust embættinu 630 tilkynningar vegna heimilisofbeldis það ár. Eru þetta ríflega helmingi fleiri tilkynningar en árið á undan, þegar 303 tilkynningar bárust að því er fram kemur í gögnum sem mbl.is óskaði eftir frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Nokkur fjölgun tilkynninga hafði þó átt sér þó stað milli áranna 2012 og 2014, en alls bárust embættinu 225 tilkynningar um heimilisofbeldi árið 2012 og 244 árið 2013.

Í ársskýrslu lögreglunnar fyrir 2015 er bent á að ástæða mikillar aukningar málafjölda megi reka til aukinnar umfjöllunar um heimilisofbeldi og mögulegra úrræði í þeirri baráttu. „Að sú vissa að tekið væri á heimilisofbeldi ýtti undir að brotaþolar stigu fram og leituðu aðstoðar,“ segir í skýrslunni.

Fram til 6. september á þessu ári hafa 423 tilkynningar um heimilisofbeldi borist lögreglunni, sem bendir til þess að á ársgrundvelli verði fjöldi tilkynninga í ár svipaður og í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert