Sjaldan verið óumdeildur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég var gríðarlega ánægður með þennan miðstjórnarfund í megindráttum. Mér fannst þetta mjög góður fundur og góðar umræður og var þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk þar. Það er hins vegar alveg ljóst að ég er ekki algerlega óumdeildur og hef reyndar sjaldnast verið. Það eru ákveðnir menn sem hafa verið gagnrýnir á mig og oft eru það nú sömu mennirnir.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. Spurður um mótframboð Sveinbjörns Eyjólfssonar, forstöðumanns nautastöðvar Bændasamtaka Íslands, á fyrirhuguðu flokksþingi Framsóknarflokksins segir hann að það megi alltaf búast við að einhverjir velti fyrir sér framboðum þegar flokksþing er framundan og kosningar. Spurður hvort hann eigi von á mótframboði frá Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra og varaformanni Framsóknarflokksins, segist hann ekki eiga von á því. 

Sigurður Ingi ítrekað útilokað mótframboð

„Við Sigurður Ingi höfum unnið lengi saman og ræðum bara málin okkar á milli. Hann hefur sagt alloft, bæði opinberlega og á fundum með mér, að hann myndi aldrei bjóða sig fram gegn mér. Og það var raunar það síðasta sem hann ítrekaði þegar ég bað hann um koma inn í Stjórnarráðið fyrir mig á meðan mál væru að skýrast síðasta vor. Þannig að ég hef enga ástæðu til ætla að einhverjar breytingar hafi orðið á því þó kannski þurfi ekki að koma á óvart að þeir sem af einhverjum ástæðum hafa ekki verið sáttir við mig um árabil skori á hann.“

Spurður hvernig hann meti stöðu sína innan Framsóknarflokksins segir Sigmundur: „Ég met stöðu mína innan flokksins góða. Annars vegar vegna þess að ég hef verið mjög mikið á fundum að undanförnu og hitt ákaflega margt fólk og hins vegar, þó ég segi sjálfur frá, vegna þess að það hefur náttúrulega gengið alveg frábærlega á þessu kjörtímabili og jafnvel betur en ég, sem er þó bjartsýnn yfirleitt, þorði að vona. Þannig að ég fer stoltur í komandi kosningar og ég tel að flokkurinn hafi tilefni til þess að gera það sem heild.“

Fékk sendan tölvupóst undir röngu nafni

Spurður um innbrot í tölvuna hans segir Sigmundur að fyrir það fyrsta hafi nokkrum sinnum komið upp tölvuöryggismál hjá Stjórnarráðinu. Meðal annars hafi vefsíða þess verið hökkuð. Hann greindi frá því að í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina að brotist hefði verið inn í tölvuna hans. Nokkuð sem hann segist hafa nefnt í framhjáhlaupi í ræðunni. Það hafi hins vegar atvikast þannig að hann hafi fengið sendan tölvupóst frá manni sem ekki hafi sent póstinn.

„Tölvupóstinum fylgdi viðhengi og þegar það var opnað var í því einhvers konar búnaður til þess að komast inn í tölvur. Ég kallaði til tæknimenn frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins og þeir gátu ekki séð hvort eða hversu miklum upplýsingum hefði verið náð úr tölvunni eða hvort það hafi tekist að virkja þetta. En þeir sögðu að það eina sem væri öruggt til þess að bregðast við þessu væri að skipta um harðan disk í tölvunni. Það væri ekki nóg að strauja hann bara.“

Varðandi síma og tölvupóst segir Sigmundur að honum og öðrum ráðherrum hafi verið tjáð af sérfræðingum að best væri að gera ráð fyrir því að allt sem þeir sendu í tölvupósti væri lesið af öðrum. Eins að hlustað væri á síma þeirra. „Fyrir þessu væru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi væri orðið mjög auðvelt að brjótast inn í svona tæki og ýmsir sem gæti séð sér hag í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert