Mikil breyting á fjórum árum

Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og forsvarsmaður …
Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs Landspítalans og forsvarsmaður tækjakaupanefndar. Eggert Jóhannesson

Staðan varðandi tækjakost á Landspítalanum er mun betri í dag en hún var fyrir fjórum árum. Átak stjórnvalda sem hefur falist í stórauknum framlögum síðustu ár hefur skilað því að spítalinn er núna á réttri braut varðandi endurnýjun og kaup á nýjum tækjum. Þetta segir Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri á spítalanum og forsvarsmaður tækjakaupanefndar Landspítalans.

„Þetta er allt annað eftir að það kom meira fjármagn í þetta fyrir nokkrum árum. Við vorum komin með mjög langan hala og það var orðinn mikill skortur,“ segir Jón. Hann segir tækjakaup spítalans þó ekki vera komin á þann stað sem þau vilji vera á, en með jöfnu framlagi líkt og síðustu ár megi segja að spítalinn eigi að geta náð á eðlilegan stað í endurnýjunarferlinu. Segir hann að með 20-40% hærra framlagi væri auðvitað hægt að ná þeim stað fyrr, en af praktískum ástæðum væri óraunhæft að margfalda framlögin. Það tengdist því að hafa mannskap í kaupferlið o.s.frv.

Jón segir að allt tal um átak í þessum efnum sé þó varhugavert, því þegar ráðist var í aukin fjárútlát vegna tækjakaupa fyrir fjórum árum segir hann að upphæðin hafi farið úr því að duga engan veginn upp í raunhæfa tölu. Slíkt sé ekki átak heldur að fara í rétta stöðu. Það sem skipti því mestu máli núna sé að halda útgjöldum í þessum málaflokki stöðugum.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Fyrirsjáanleikinn skiptir þar miklu máli,“ segir hann og bendir á að þegar farið sé í kaup á þessum tækjum þurfi að fara í útboð á EES-svæðinu og slíkt ferli og mat á tilboðum taki oft 1-2 ár. Þannig séu þeir núna að undirbúa útboð fyrir árin 2017 og 2018 og það sé því erfitt að vita ekki hvort sama upphæð verði í tækjakaupasjóði spítalans fleiri ár fram í tímann.

Heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, í vikunni varðandi útgjöld til tækjakaupa og hvernig þau hefðu verið frá 2014 miðað við fjárlög. Bæði árin 2014 og 2015 og það sem af er árinu 2016 eru kaupin nokkrum prósentum fram úr áætlun.

Árið 2014 var fjárheimild til tækjakaupa á spítalanum upp á 1.262 milljónir, en lokaniðurstaðan hljóðaði upp á 1.406 milljónir. Árið eftir var fjárheimild upp á 1.445 milljónir en lokaniðurstaðan var kostnaður upp á 1.719 milljónir. Það sem af er á þessu ári hefur áætlaður kostnaður keyptra tækja verið 1.031 milljón en stendur í 1.076 milljónum í dag.

Jón segir að þetta ráðist af því að erfitt sé að meta allan kostnað við endurnýjun, þannig hafi nokkur stærri tæki reynst dýrari en lagt var upp með og það vegur þungt í þessari samantekt.

Næstu stóru tækjakaup spítalans eru að sögn Jóns um hálfs milljarðs kr. línuhraðall sem notaður er í krabbameinsmeðferð. Tveir slíkir eru til á Landspítalanum og var annar þeirra endurnýjaður fyrir 2-3 árum. Nú er komið að endurnýjun hins línuhraðalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert