Skilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot

Hæstiréttur stytti fangelsisrefsingu mannsins.
Hæstiréttur stytti fangelsisrefsingu mannsins. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann í skilorðsbundið 20 mánaða fangelsi fyrir endurtekin kynferðisbrot gegn fjórtán ára stúlku. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn til tveggja ára skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir sömu brot. Stytti Hæstiréttur því refsinguna um fjóra mánuði.

Í dóminum segir að af framburði brotaþola fyrir dóminum og vottorði sálfræðings sem liggi fyrir í málinu verði ráðið að brotin hafi valdið stúlkunni mikilli vanlíðan. Þá hafi þau átt í sambandi á tíma brotanna, en maðurinn er fæddur árið 1996 og var sextán ára þegar hann framdi brotin.

Maðurinn hefur áður hlotið dóm til skilorðsbundinnar 18 mánaða fangelsisvistar í Hæstarétti í júní 2014, fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við þrjár stúlkur á aldrinum 12 til 14 ára.

Tveir mánuðir bætast við fyrri refsingu

Þau brot sem maðurinn hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu fyrri dómsins. Var því ákveðið að taka upp þann dóm og gera honum eina refsingu fyrir öll brotin, að því er segir í dómi Hæstaréttar.

Af því má ráða, að vegna endurtekinna kynferðisbrota gegn umræddri 14 ára stúlku, bætist tveir mánuðir við skilorðsbundna fangelsisrefsingu mannsins. Auk þess var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 800 þúsund krónur í miskabætur, en fyrir Héraðsdómi hafði hún krafist kr. 1.500.000.

Maðurinn hlaut skilorðsbundinn tveggja ára fangelsisdóm fyrir Héraðsdómi.
Maðurinn hlaut skilorðsbundinn tveggja ára fangelsisdóm fyrir Héraðsdómi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Ítrekuð samræði á heimili mannsins

Maðurinn var ákærður fyrir „kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa ítrekað á tímabilinu frá  7. apríl 2012 og fram í júní 2012, á heimili ákærða að [...] í Reykjavík, og í eitt skipti í fellihýsi á ferðalagi um landið, haft samræði við stúlkuna A, sem þá var 14 ára gömul.“

Taldi Hæstiréttur brot þessi varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, þar sem segir að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en 14 ára, skuli sæta fangelsi allt að 12 árum.

Fyrir dómi árið 2014 játaði maðurinn greiðlega brot sín og hafði þá, frá ágústmánuði 2012, gengist undir meðferð hjá sálfræðingi vegna hegðunar sinnar.

Sjá dóm Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert