Grundvallarregla að börn alist upp nálægt fjölskyldu

Bragi Guðbrands­son, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu.
Bragi Guðbrands­son, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mál fimm ára íslensks drengs sem héraðsdómur dæmdi um að ætti að senda til norskra barnaverndaryfirvalda er mjög sérstakt og fá svona mál koma að jafnaði upp. Ekki eru til skýrar reglur um hvernig svona mál ganga fyrir sig hjá íslenskum barnaverndaryfirvöldum, en að sama skapi hefur ekki borist nein formleg beiðni um að Barnaverndarstofa skoði málið. Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, í samtali við mbl.is. Hann segir að miðað við niðurstöðu yfirvalda í Noregi á sínum tíma sé hann bjartsýnn á að einhver sameiginlegur flötur finnist í málinu, en það þurfi fyrst að ganga sinn gang í réttarkerfinu.

Frétt mbl.is: Sjálfsagt að kanna samstarf við norsku barnaverndina

Málinu ekki lokið í dómskerfinu

Málið hefur vakið talsverða athygli undanfarna daga eftir að héraðsdómur úrskurðaði að senda ætti drenginn til Noregs á ný. Hafði móðir hans verið svipt forræði yfir drengnum, en hún er íslensk og bjó í Noregi á þessum tíma. Barnsfaðirinn er aftur á móti búsettur í Danmörku og hefur lítið komið að uppeldi drengsins. Hefur málið meðal annars komið fyrir í ræðum alþingismanna í dag og í gær sem hafa lýst áhyggjum af því að senda eigi drenginn út í fóstur meðan fjölskylda hans býr hér á landi. Þá fjallaði Stundin ítarlega um málið og ræddi við ömmu drengsins.

Frétt mbl.is: Mannréttindi brotin á fimm ára dreng

Frétt mbl.is: Nútímabarnsrán í uppsiglingu

Bragi tekur fram að hann hafi ekki kynnt sér málið til hlítar, en að honum skiljist að áfrýja eigi dómi héraðsdóms hér á landi. Þá hafi ákvörðun barnaverndaryfirvalda í Noregi einnig verið kærð til dómstóla þar. Segist hann ekki eiga von á því að drengurinn verði sendur út meðan ekki sé komin niðurstaða í málið og að fá verði niðurstöðu í málið.

Ef niðurstaðan verður sú sama hjá Hæstarétti hér á landi segir Bragi að það sé ljóst að ákvörðun um framtíð barnsins liggi hjá yfirvöldum í Noregi. Hann segir aftur á móti að þá gæti hafist eftirgrennslan hjá barnaverndaryfirvöldum hér á landi með hvort börnin gætu til dæmis farið í fóstur hér á landi til að vera nær ættingjum.

Grundvallarregla að börn alist upp nálægt stórfjölskyldu

Segir hann að þó að ekki séu bein fordæmi, þá séu fordæmi fyrir því að börn af erlendu bergi brotin, sem verði forsjárlaus eða að foreldrar þeirra hafi verið sviptir forræði hér á landi, hafi verið send til fjölskyldu sinnar í sínu heimalandi. Þá séu líka fordæmi um að í máli Íslendinga sem hafi misst forræði barna sinna á erlendri grundu, að samkomulag hafi náðst við barnaverndaryfirvöld erlendis að flytja börnin hingað í fóstur.

Bragi segir því ekki þörf á að vera svartsýnn í þessu máli þótt ekki sé heldur hægt að gefa út yfirlýsingar sem gætu byggt á fölskum vonum.

Almennt sé þó hafið yfir allan efa að barnaverndaryfirvöld reyni að tryggja að í öllum aðgerðum sínum sé þess gætt að börn fái að alast upp innan stórfjölskyldu og í því samfélagi sem þau séu frá. „Það er grundvallarreglan,“ segir Bragi.

Niðurstaðan í Noregi í raun í takti við þessa grundvallarreglu

Hann bendir á að í þessu máli hafi bæði móðir barnsins, systir móður og amma þess, sem kom mikið að uppeldi drengsins frá fæðingu hans og flúði með hann til Íslands eftir að barnaverndaryfirvöld í Noregi ætluðu að taka hann frá móðurinni, búið í Noregi. Því hafi barnaverndaryfirvöld þar í raun verið að fara eftir þeim grundvallarreglum að úrskurða barn í fóstur nálægt stórfjölskyldunni. Síðan sú niðurstaða hafi fengist hafi amman aftur á móti farið til Íslands og nokkrar breytingar á forsendum orðið.

„Því er ég bjartsýnn að það kunni að vera flötur um sameiginlega framtíðarsýn fyrir þennan dreng,“ segir Bragi.

Hann ítrekar þó að málið sé núna í meðferð dómstóla og þá hafi engin formleg beiðni komið til Barnaverndarstofu um að beita sér í málinu gegn norskum yfirvöldum. Það sé þó líklega ekki eðlilegt að það verði gert fyrr en skoðun dómstóla á málinu sé lokið, enda hafi stofnunin ekki heimild til að grípa inn í mál meðan það er í ferli hjá dómstólum samkvæmt alþjóðlegum samkomulögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert