„Ég notaði skapið alveg á hana“

Rætt var við tíu ofbeldismenn.
Rætt var við tíu ofbeldismenn. mbl.is/G.Rúnar

Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi maka einhvern tímann á ævinni. Þetta kom fram í fyrirlestri Jóns Ingvars Kjaran, lektors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um sjálfsímynd ofbeldismanna á Þjóðminjasafninu í dag.

Yfirskrift fyrirlestursins var „Ég er ofbeldismaður.“ Hvaða mynd draga gerendur ofbeldis upp af sjálfum sér? Kom fram að heimilið væri hættulegasti staðurinn fyrir konur en 60% morða hér á landi á árunum 2003-2015 má rekja til heimilisofbeldis.

Fyrirlestur Jóns byggir á rannsókn sem enn stendur yfir og var þetta fyrsta kynning á henni. Var framsagan hluti af fyrirlestrarröð RIKK, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, en að þessu sinni fæst fyrirlestrarröðin við kynbundið ofbeldi og áhrif kynjakerfisins á heilsufar.

Hægt er að skilgreina ofbeldi á mismunandi hátt. Í þessari rannsókn var litið á líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt og kynferðislegt ofbeldi. 

„Talað er um ofbeldi í nánum samböndum í stað heimilisofbeldis. Með þessu er ofbeldið takmarkað við þá sem eru í nánum tengslum,“ sagði Jón og bætti við að ofbeldi á milli fólks í nánum samböndum væri allt öðruvísi heldur en ofbeldi milli ókunnugra. 

„Ofbeldi í nánum samböndum eru meiri svik vegna þess að heimili eða náin sambönd eru álitin ákveðinn griðarstaður.“

Feðraveldið rót vandans

Jón fjallaði um feðraveldið og sagði að ofbeldi innan veggja heimilisins mætti rekja til þess. Gagnrýnin afstaða sé tekin til karlmennsku og feðraveldisins og það verði að ráðast gegn rót vandans; feðraveldinu sjálfu.

Jón Kjaran.
Jón Kjaran.

Jón ræddi við 10 gagnkynhneigða ofbeldismenn á aldrinum 28-50 ára. Ætlunin var að sjá hvaða mynd þeir hefðu af sjálfum sér; hvernig útskýra þeir ofbeldishegðun sína, hvers konar ofbeldi beittu þeir og skilgreina mennirnir sig sem ofbeldismenn?

„Ég notaði skapið alveg þú veist á hana. Þú veist...vera grimmur og urrandi og, og svona fékk mínu fram.“ Þannig lýsti einn ofbeldismannanna hegðun sinni gagnvart sambýliskonu sinni. Annar sagðist þurfa að hvæsa og byrsta sig til að svara henni í sömu mynt.

Einn mannanna lýsti því hvernig stöðugur pirringur endaði í því að hann sprakk. Hann kvaðst einungis muna glefsur af því en Jón benti á að minnisleysi væri algengt þema í slíkum málum. 

„Ef ég fékk ekki að ríða þá setti maður bara af stað ákveðið leikrit þangað til ég fékk það.“

„Þetta var fokkin viðbjóður“

Viðmælendur Jóns áttu það allir sameiginlegt að þeir töldu sig vera góða skaffara og þeir voru uppfullir af karlmennskuhugmyndum.

Að vera sannur karlmaður snýst um að færa björg í bú og vernda og skaffa vel.

„Þetta var fokkin viðbjóður, ég réði ekki við mig“ og „Þetta er meingallaðasta kvikindi sem ég hef nokkurntímann verið með“ voru meðal skýringa sem menn gáfu hvers vegna þeir beittu ofbeldi. Svik eða vantraust virtist ríkjandi mynstur og velti Jón því upp hvort það væri svik við karlmennskuna. 

Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi maka.
Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi maka. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Karlmenn eiga það til að beita ofbeldi ef ráðist er að heiðri þeirra, sérstaklega þegar karlmennska þeirra er dregin í efa. Vantraust og svik draga upp svipaðar tilfinningar,“ sagði Jón.

Viðmælendur Jóns voru að lokum spurðir hvort þeir litu á sjálfa sig sem ofbeldismenn og tók hann þrjú dæmi. Sá fyrsti sagðist gera það og vísaði í ofbeldisfulla fortíð og skapgerðarbresti því til stuðnings.

Annar sagðist ekki líta á sig sem ofbeldismann. Umhverfið gerði það hins vegar, vegna gjörða hans. Þriðji maðurinn fór að viðurkenna það eftir langt og strangt meðferðarferli hjá sálfræðingi. „Ertu fokkin vangefinn,“ var svarið sem sálfræðingurinn fékk fyrst við ofangreindri spurningu. Síðar viðurkenndi hann það.

„Lausnin felst í því að brjóta niður margar skaðlegar karlmennskuhugmyndir og ráðast að rót vandans; feðraveldinu,“ sagði Jón undir lokin. Auka þurfi fræðslu og í því samhengi eigi að leggja ríka áherslu á kynjafræðikennslu innan skóla, sérstaklega framhaldsskóla.

Viðmælendur hans hefðu allir talað um að þeir hefðu viljað og þegið fræðslu um hvernig ætti að haga sér í samböndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert