Lampapöntun frestar opnun Arnarnesvegar

Nýr Arnarnesvegur i Kópavogi.
Nýr Arnarnesvegur i Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Til stendur að opna nýjan kafla Arnarnesvegar 15. nóvember næstkomandi en opna átti veginn í byrjun október. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, er ein af ástæðunum fyrir seinkuninni sú að pöntun Vegagerðarinnar á lömpum í ljósastaurana við veginn misfórst.

„Það var einhver misskilningur. Menn héldu að þeir væru búnir að panta þegar það var ekki búið,“ segir G. Pétur.

Hann veit ekki hversu margir lamparnir eru en segir að þeir séu á leiðinni til landsins.

Blómin farin að fölna 

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, hlakkar til að taka veginn í notkun en hefði viljað sjá hann opnaðan fyrr. „Ég er undrandi að menn hafi verið alveg í myrkrinu með að panta lýsingu á veginn. Blómin sem ég ætlaði að afhenda þegar umferð væri hleypt á veginn eru farin að fölna mjög mikið,“ segir Ármann.

„En það breytir því ekki að við hlökkum mikið til að taka þetta flotta mannvirki í notkun.“  

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

1,6 kílómetra langur vegur

Nýr kafli Arnarnesvegar verður 1,6 kílómetra langur og liggur á milli Reykjanesbrautar og Fífuhvammsvegar í Kópavogi.

Tvenn undirgöng verða á svæðinu, undir Reykjanesbraut og við Þorrasali. Einnig verður göngubrú til móts við kirkjugarðinn í Kópavogi.

Minni umferð um Fífuhvammsveg

Umferðarþungi á Fífuhvammsvegi í Kópavogi verður töluvert minni eftir að nýr kafli Arnarnesvegar kemur til sögunnar.

Með lengri Arnarnesvegi er búist við að umferð um Fífuhvammsveg fari úr 18 þúsund bílum á sólarhring niður í 13 til 15 þúsund bíla og að umferð um Arnarnesveg verði 8 þúsund bílar á sólarhring.

Tenging Arnarnesvegar frá Reykjanesbraut til Fífuhvammsvegar er næstsíðasti áfangi vegarins en síðasti áfanginn er tenging Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut við Rjúpnahæð. Sá áfangi er væntanlegur árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert