Ákærður fyrir tilraun til manndráps

Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti í kjölfar þess að skotið …
Frá aðgerðum lögreglu í Breiðholti í kjölfar þess að skotið var úr haglabyssunni. mbl.is/Freyja Gylfadóttir

Héraðssaksóknari hefur ákært tvo karlmenn fyrir að hafa skotið úr haglabyssu í Fellahverfi í Reykjavík í byrjun ágúst í kjölfar átaka. Annar mannanna er ákærður fyrir tilraun til manndráps, hættubrot og vopnalagabrot fyrir að hafa skotið úr byssunni á bifreið sem kona og karlmaður voru í. Hinn er ákærður fyrir hættubrot og vopnalagabrot fyrir að hafa stofna lífi nærstaddra í hættu með því að hafa hleypt af skoti úr sömu byssu.

Frétt mbl.is: Blóðkám fannst á byssunni

Fram kemur í ákærunni að fyrrnefndi karlmaðurinn hafi beint haglabyssunni að bifreiðinni á bílastæði við Rjúpnafell að kvöldi 5. ágúst og hleypt af skoti af um tíu metra færi sem hæft hafi hurð og hliðarrúðu hennar að framan hægra megin með þeim afleiðingum að skemmdir hafi orðið á hurðinni. Hliðarrúðan hafi brotnað og konan, sem verið hafi farþegi í framsæti bifriðarinnar, hafi fengið glerbrot yfir sig og hlotið minniháttar skurði. Með háttsemi sinni hafi maðurinn stefnt lífi og heilsu fólksins í bifreiðinni í „stórfelldan háska á ófyrirleitinn hátt.“

Frétt mbl.is: Heyrði tvo skothvelli í Iðufelli

Hinn karlmaðurinn er ákærður fyrir að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu konu og karlmanns „auk fjölda annarra óþekktra vegfarenda í stórfelldan háska með því að hleypa af skoti úr afsagaðri haglabyssu af gerðinni Winchester á almannafæri og beint byssunni skáhalt upp á við og í áttina að fyrrnefndum aðilum,“ eftir að hafa lent í átökum við karlmanninn. Héraðssaksóknari krefst þess að hinir ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaða. Auk þess að haglabyssan verði gerð upptæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka