Fjögurra ára fangelsi vegna kynferðisbrota

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur staðfesti í dag fjögurra ára fangelsisdóm yfir manni vegna kynferðisbrota sem hann framdi gegn frænku sinni þegar hún var 13 til 15 ára gömul á árunum 2005 til 2008. Hluti brota mannsins var fyrndur en honum var gerður hegningarauki vegna eldri dóms.

Ákæran gegn manninum var í sex liðum og var hann sakaður um ýmis konar kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkunni á heimili foreldra hans þegar hann bjó þar en hann og stúlkan eru systrabörn.

Honum var meðal annars gefið að sök að hafa látið stúlkuna fróa sér og veita sér munnmök með valdi, strokið hana innan og utan klæða í nokkur skipti auk fleiri brota á tímabilinu. Maðurinn neitaði sök í öllum ákæruliðum. 

Hann var sakfelldur fyrir að hafa strokið mjaðmir hennar og rass utan klæða og hreyft hana til í samfarahreyfingum eftir að hann hafði látið stúlkuna nudda sig og fyrir að hafa í annað skipti haldið henni niðri, þar sem hún lá á rúmi hans, strokið líkama hennar og rass, og þrátt fyrir að hún bæði hann um að hætta, tekið í buxnastreng hennar, sett titrara inn fyrir buxur hennar og inn í kynfæri hennar og kveikt á titraranum, sett hönd hennar á getnaðarlim hans og látið hana fróa honum, og síðan sett getnaðarliminn í munn hennar, haldið um hnakka hennar og látið hana hafa við hann munnmök þar til hann fékk sáðlát.

Brot þar sem maðurinn strauk stúlkunni, nuddaði kynfærum sínum við rass hennar, sýndi henni myndband af sér að hafa samfarir við aðra stúlku og veitti stúlkunni áfengi töldust vera fyrnd.

Áður en ákærði framdi brotin sem hann var sakfelldur fyrir hafði hann þrisvar sinnum verið sektaður fyrir brot gegn umferðar- og fíkniefnalögum. Hann var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi árið 2015 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Við refsingu ákærða bætti því hegningarauki.

Þá bar að taka skilorðsdóminn upp og dæma með þessu máli. Samkvæmt þessu var refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert