Áfram leitað að rjúpnaskyttunni í kvöld

Aðstæður til leitar eru erfiðar.
Aðstæður til leitar eru erfiðar. Ljós­mynd/​Land­sbjörg

Leitin að rjúpnaskyttunni austur á Héraði sem staðið hefur yfir síðan í gærkvöldi hefur enn engan árangur borið. Áfram verður leitað í kvöld og nótt en þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Fleira björgunarsveitarfólk hefur verið kallað til leitarinnar svo hægt verði að leita af krafti þegar birtir í fyrramálið en rúmlega 370 björgunarsveitamenn víðs vegar af landinu hafa komið að leitinni til þessa.

Dimm él komu í veg fyrir að hægt væri að nýta þyrlu Landhelgisgæslunnar til leitar fyrr en um klukkan 16.00 í dag. Þá létti til og þyrlan komst í tæplega tveggja tíma leitarflug sem ekki skilaði árangri.

„Staðan er þannig að það er verið að fín­kemba svæðið, hlíðina frá Ein­ars­stöðum, þar sem hann lagði af stað og ætlaði að skila sér til baka. Það er verið að fín­kemba þá hlíð í norður. Þetta er skógi vax­in hlíð og erfiður snjór og það er svo­lítið erfitt fyr­ir okk­ar fólk að at­hafna sig þar,“ sagði Þor­steinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, um stöðu mála.

Eins og áður kom fram eru aðstæður til leit­ar afar erfiðar. Snjór­inn er of mik­ill fyr­ir fjór- og sex­hjól björg­un­ar­sveit­ar­mann­anna en of lít­ill fyr­ir vélsleða. Því hafa leit­ar­menn aðallega farið yfir fót­gang­andi, á þrúg­um eða á skíðum.  

Frá leitinni í dag.
Frá leitinni í dag. Ljós­mynd/​Land­sbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert