Segja Pírata ekki hafa staðið í veginum

Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy, þingmenn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy, þingmenn Pírata. mbl.is/Golli

Ekkert af áherslumálum Pírata stóð í vegi fyrir stjórnarmyndun fimm flokka, sem rétt í þessu fóru út um þúfur. Tók flokkurinn þátt af fullum heilindum og samstarfsvilja í viðræðunum og eru það mikil vonbrigði að ekki hafi náðst saman frjálslynd umbótastjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum sem send var á fjölmiðla eftir að ljóst varð að upp úr viðræðunum slitnaði.

Í tilkynningunni kemur fram að tekist hafi að vinna að málamiðlunum án þess að þurfa að gefa afslátt af áherslumálum flokksins. Reynt hafi verið að þyrla upp ryki og skapa óvissu um stefnumál sem ekki voru sett á oddinn fyrir kosningar, en það hafi aldrei verið ætlun Pírata að láta stefnumál byggð á ákvæðum nýrrar stjórnarskrár koma í veg fyrir samstarf við aðra flokka í stjórnarmyndun.

Talin eru upp stefnumál flokksins sem samstaða hafi verið um í viðræðunum. Þannig hafi ferli fyrir innleiðingu nýrrar stjórnarskrár verið vel tekið. Samstaða hafi verið um dreifingu arðs af auðlindum og enginn sett sig á móti endurreisn heilbrigðisþjónustu, eflingu aðkomu almennings að ákvörðunartöku, að tækla spillingu og því að endurvekja traust á Alþingi. 

Þá segir í tilkynningunni að verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, hafi verið til fyrirmyndar og vilja Píratar koma á framfæri þakklæti fyrir gott samtarf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert