„Vonar að þetta hafi áhrif“

Lögreglumenn við heimili fjölskyldunnar á Reykjanesi í síðustu viku.
Lögreglumenn við heimili fjölskyldunnar á Reykjanesi í síðustu viku. Skjáskot/Facebook

Lögmaður fjögurra manna fjölskyldu, sem vísa átti á brott úr landinu í síðustu viku, hyggst afhenda fulltrúum innanríkisráðuneytisins undirskriftir þeirra rúmlega fimm þúsund Íslendinga sem krafist hafa þess að hætt verði alfarið við brottvísun fjölskyldunnar.

Í samtali við mbl.is segist lögmaðurinn, Elín Árnadóttir, vona að þessi fjöldi undirskrifta verði til þess að breyta afstöðu yfirvalda. 

Yfirvöld ekki brugðist við

„Viðbrögðin hafa verið slík að maður er hreinlega hrærður. Hins vegar hafa yfirvöld ekki brugðist við með neinum afgerandi hætti og er réttarstaða fjölskuldunnar sú sama, þ.e. til stendur að vísa henni úr landi,“ segir í tölvupósti sem Elín hefur sent fjölmiðlum.

Þá vísar hún til sameiginlegrar yfirlýsingar Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, Rauða krossins, UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna, sem mbl.is greindi frá í gær.

Undirskriftalistinn verður færður ráðuneytisstjóra klukkan þrjú nú síðdegis, í ráðuneytinu við Sölvhólsgötu.

„Maður vonar að þetta hafi áhrif.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert