Segir ekki alla leita til læknis vegna mengunar

Mengun frá kísilverksmiðjunni í Helguvík.
Mengun frá kísilverksmiðjunni í Helguvík.

Um fimmtíu athugasemdir og kvartanir hafa borist Umhverfisstofnun um mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík frá því að brennsluofn var tekinn í notkun 11. nóvember. Hvorki stofnunin né sóttarvarnalæknir telja hættu á ferðum en varabæjarfulltrúi segir ekki alla sem finna einkenni leita til læknis.

Íbúar í nágrenni verksmiðjunnar í Reykjanesbæ hafa kvartað undan mengun sem frá henni berst síðustu vikur. Mengunin hafi valdið þeim óþægindum, meðal annars eymslum í lungum og hæsi. Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirlitsteymi hjá Umhverfisstofnun, segir að töluvert mikið af kvörtunum hafi borist stofnuninni, langflestar þeirra 17. nóvember.

„Þeim hefur farið fækkandi. Ég held að þetta sé komið hátt í fimmtíu ábendingar sem við höfum fengið. Það er kannski ekki endilega allt kvartanir. Sumt er skammarpóstar, sumt er athugasemdir við auglýsingu á nýju starfsleyfi fyrir Thorsil, sumt er spurningar almennt um hvaða áhrif þetta hefur. Svo eru líka innan um kvartanir um lykt og reyk,“ segir hún.

Þá veit hún til þess að einhverjar kvartanir hafi borist bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ sem þau hafi reynt að áframsenda til Umhverfisstofnunar. Stofnunin reyni að svara öllum fyrirspurnum sem koma og bregðast við ábendingum. Sumar ábendinganna hafi orðið til þess að starfsmenn stofnunarinnar fari á staðinn til að kanna ástandið.

„Það voru kvartanir einn morguninn um að það hefði verið reykur og sendar myndir til okkar. Þá fórum við sama dag í eftirlit,“ segir Sigríður.

Ekki þörf á að grípa til aðgerða

Í sameiginlegri tilkynningu sem Umhverfisstofnun og sóttvarnalæknir sendu frá sér á mánudag kemur fram að mælingar á mengunarefnum hafi aldrei farið yfir viðmiðunarmörk vegna heilsuverndar manna frá því að ofn verksmiðjunnar var tekinn í gagnið.

Samkvæmt rannsóknum sóttvarnalæknis sé auk þess ekkert sem bendi til að fólk hafi almennt orðið fyrir heilsufarslegum áhrifum vegna mengunar frá kísilverksmiðjunni í Helguvík. Er vísað til gagna heilsugæslunnar og umdæmislæknis sóttvarna á svæðinu.

Það sé sameiginlegt mat Umhverfisstofnunar og sóttvarnalæknis að ekki sé þörf á að grípa til aðgerða vegna reyks frá verksmiðju og brunalyktar á svæðinu. Báðir aðilar muni þó fylgjast náið með og vakta bæði umhverfi og menn á svæðinu með tilliti til hugsanlegra mengunaráhrifa.

Enginn loftgæðamælir í bænum

Dagný Alda Steinsdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og óháðra og varaformaður Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands, segir hins vegar að margt fólk sem finni til einkenna af menguninni leiti ekki á heilsugæslustöð.

„Ég hef sjálf talað við fólk sem vinnur þarna í kringum verksmiðjuna sem hefur fundið einkenni,“ segir hún.

Dagamunur sé á menguninni en en hún sé verst í bænum þegar norðanátt er ríkjandi. Þá berist ólykt yfir bæinn. Dagný Alda gagnrýnir að fólk hafi ekki verið upplýst um hvaða einkenni það eigi að varast.

Þá bendir hún á að þó að mengunin hafi ekki farið yfir viðmiðunarmörk Umhverfisstofnunar þá séu loftgæðamælarnir sem mæli hana allir staðsettir á svonefndu þynningarsvæði verksmiðjunnar þar sem viðmiðunarmörkin séu mun hærri. Þannig sé mögulegt að mengunin inni í bænum fari yfir leyfileg mörk. Enginn loftgæðamælir sé hins vegar í byggðinni.

„Þessir mælar gagnast í rauninni ekkert íbúum hérna. Við verðum eiginlega að fá mæla inn í bæinn,“ segir Dagný Alda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert