Segir Hringrás hafa brotið reglur

Frá slökkvistarfinu á Klettagörðum.
Frá slökkvistarfinu á Klettagörðum. mbl.is/Ófeigur

Á endurvinnslusvæði Hringrásar, þar sem eldur kom upp í gær, var of mikið af efnivið á safnhaugunum sem þar eru en leyfilegt er samkvæmt reglum. Einnig var töluvert af hlutum eins og járni og gámum á athafnasvæði fyrir viðbragðsaðila sem gerði starfi slökkviliðsins erfiðara um vik.

Frétt mbl.is: Eldur í Hringrás í Klettagörðum

Bíður eftir skýrslu heilbrigðiseftirlitsins

„Þetta var inni á svæði sem við reiknuðum með að hafa til umráða til að vinna á svæðinu,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins.

Hann bendir á að þetta eigi eftir að koma betur í ljós þegar skýrsla heilbrigðiseftirlitsins og slökkviliðsins liggur fyrir. Í dag gerðu þeir úttekt á svæðinu. 

Ekki liggur fyrir um upptök eldsins en rannsóknarlögreglan sinnir þeirri rannsókn. 

Brunavarnir Hringrásar í Klettagörðum miðast við að halda safnhaugum innan svæðisins í lágmarki. Einnig er svæðið hólfað niður þar sem tiltekin tegund af efnivið eins og dekk og járn á að vera innan afmarkaðs svæðis. 

Engar hitamyndavélar

Ekki var búið að setja upp hitamyndavélar á svæðinu sem greina óvenjulega hitamyndun og senda boð um hana. Samkvæmt áhættumati á brunavörnum á svæðinu, sem var gert fyrir nokkrum árum, var sagt til um að það þyrfti að koma upp slíkum vélum.

„Það má ekki gleyma því að það er hlutverk hvers rekstraraðila að halda sig innan þeirra marka sem talað er um,“ segir Jón Viðar.

Fyrirtæki bera ábyrgð á að uppfylla brunavarnir sem kveðið er á um í lögum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert