Samstarf fimm flokka ekki fullreynt

Birgitta Jónsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fund fulltrúa Pírata með …
Birgitta Jónsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fund fulltrúa Pírata með forsetanum. mbl.is/Golli

Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Pírata, vildi ekki meina að fullreynt væri að koma á samstarfi fimm flokka sem upp úr flosnaði í annað skiptið í dag þegar hún kom af fundi með forsetanum á Bessastöðum. Hún telur ekki tíma kominn til að kjósa aftur og að þjóðstjórn yrði ávísun á engar breytingar.

Fulltrúar Pírata gengu á fund Guðna Th. Jóhannessonar forseta nú kl. 17 til að skila stjórnarmyndunarumboði eftir að viðræður þeirra, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, Samfylkingar og Vinstri grænna sigldu í strand í dag.

Að fundinum loknum sagði Birgitta að forsetinn ætlaði sjálfur að greina frá því hvað gerðist í framhaldinu. Samkvæmt heimildum Mbl.is hyggst forsetinn senda frá sér yfirlýsingu í kvöld.

Fulltrúar Pírata á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á …
Fulltrúar Pírata á fundi með Guðna Th. Jóhannessyni forseta á Bessastöðum síðdegis. mbl.is/Golli

Gæti þurft að „hugsa út fyrir boxið“

Sjálf lagði Birgitta áhersla á stór verkefni sem bíði á þingi. Taldi hún hægt að byggja ofan á viðræðum flokkanna nú, til dæmis varðandi breytingatillögur við fjárlagafrumvarpið. Sagðist hún vonast til að grundvöllur væri til samstarfs þessara flokka um málefni óháð ríkisstjórnarsamstarfi.

Þannig nefndi hún að samstaða hefði náðst um mál á milli þeirra sem hún hefði ekki trúað að samstaða næðist um. Flokkarnir hafi verið sammála um að leggja áherslu á heilbrigðis- og menntamál, þeir hefðu náð samkomulagi um stjórnarskrármálin, þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmál og jafnvel um þjóðgarð á miðhálendinu.

„Mér finnst ekki fullreynt enn þá með að fólk reyni að mynda ríkisstjórn, hvernig svo sem hún mun líta út. Píratar eru enn þá mjög ákveðnir í því að þeir ætli ekki að fara í samstarf með flokkunum sem þeir telja að þeir geti ekki náð neinni málamiðlun með,“ sagði Birgitta þegar hún var spurð að því hvort að kominn væri tími til að kjósa aftur til Alþingis.

„Kannski þarf að hugsa út fyrir boxið enn frekar. Kannski væri tilefni til að athuga með utanþingsstjórn en mér finnst alveg ljóst að ef við ætluðum að mynda þjóðstjórn þá þyrfti fólk að sætta sig við engar breytingar,“ sagði Birgitta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert