Malarvegir og einbreiðar brýr erfið

Ferðmönnum þykir erfitt að keyra á Austurlandi meðal annars vegna …
Ferðmönnum þykir erfitt að keyra á Austurlandi meðal annars vegna fjölda einbreiðra brúa á leiðinni. mbl.is/Rax

Erlendum ferðamönnum sem leigja bílaleigubíl og ferðast um landið þykir erfiðast að aka á malarvegum. Vegir á Austurlandi, þar sem einbreiðar brýr er fjölmargar, reyndust þeim erfiðir sem og vegir á Vestfjörðum. Bæta þarf vegakerfið einkum á þessum landsvæðum og einnig þarf að fræða ferðamenn frekar um akstur og akstursskilyrði á Íslandi. Þetta kemur fram í meistararitgerð Sigríðar Lilju Skúladóttur í umhverfisverkfræði sem nefnist Samgöngur erlendra ferðamanna á Íslandi – Viðhorfskönnun á akstursskilyrðum. Rannsóknin byggist á netkönnun sem lögð var fyrir erlenda ferðamenn sem höfðu ferðast til Íslands á árunum 2013-2016. Unnið var úr tæplega 1.100 svörum.

Niðurstaðan kemur ekki mikið á óvart

„Niðurstaðan kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart miðað við það sem við vitum um vegakerfið, einkum á þessum landsvæðum sem komu verst úr. Hins vegar hefur þetta ekki verið rannsakað áður með þessum hætti,“ segir Sigríður Lilja. Umferðarslysum þar sem erlendir ferðamenn koma við sögu hefur fjölgað í takt við fjölgun erlendra ferðamanna og það var ástæðan fyrir því að hún valdi þetta efni.

Í ritgerðinni skoðaði hún nánar við hvaða akstursskilyrði erlendir ferðamenn ættu í erfiðleikum með að keyra og hvaða breytur höfðu áhrif á upplifun þeirra. Þeir ferðamenn sem höfðu lent í árekstri á Íslandi áttu erfiðara með að keyra um landið eftir það.

Sigríður Lilja Skúladóttir skoðaði samgöngur erlendra ferðamanna á Íslandi í …
Sigríður Lilja Skúladóttir skoðaði samgöngur erlendra ferðamanna á Íslandi í meistararitgerð sinni í umhverfisverkfræði.

Svör ferðamannanna voru greind niður eftir þjóðernum í eftirfarandi átta flokka: Bandaríkin, Bretland, Kanada, Norðurlönd, og í einum flokk eru löndin Frakkland, Spánn og Þýskaland, önnur lönd í Evrópu, Asía og í síðasta flokknum eru önnur lönd. Fleiri ferðamenn frá Evrópu en Asíu svöruðu spurningunum. Ferðamenn frá Spáni, Frakklandi og Þýskalandi voru líklegastir til að þykja erfiðast að keyra í fimm aðstæðum af níu. 

Flest svörin voru frá ferðamönnum frá Evrópu og Bandaríkjunum. Fæstir ferðamenn frá Kína svöruðu. Sigríður Lilja bendir á að möguleg skýring á því að færri ferðamenn frá Kína hafi svarað gæti verið vegna þess að um netkönnun var á ræða og einnig var samskiptamiðillinn Facebook notaður en hann er bannaður í Kína. Í því ljósi segir Sigríður Lilja að flokkun ferðamanna eftir þjóðerni sé ekki alveg marktæk en gefi hins vegar ákveðnar vísbendingar. 

„Vegakerfið þarf að bæta. Það þarf líka að leggja áherslu á að ferðamenn fái upplýsingar um akstur og akstursskilyrði þegar þeir taka bíl á leigu,“ segir Sigríður Lilja. Hún bendir á að Samgöngustofa og Vegagerðin hafa útbúið upplýsingaspjöld en ekki er vitað nákvæmlega hvort þessar upplýsingar skili sér til ferðamanna. Það þyrfti að rannsaka betur, að hennar mati. 

Fáir ferðamenn nota strætó-appið

Notkun almenningssamgangna var einnig könnuð. Þar kom í ljós að ferðamenn töldu skorta betri upplýsingar um þær og áætlanir. Helmingur af þeim ferðamönnum sem ferðaðist með almenningssamgöngum notaði strætó-appið. Tæplega 76% af þeim sem notaði það voru ánægðir eða mjög ánægðir með appið.  

Sigríður Lilja telur að töluvert þyrfti að bæta upplýsingagjöf um almenningssamgöngur og einnig væri til bóta að hafa þær á öðrum tungumálum en einungis ensku og íslensku. „Það þarf tvímælalaust að auka hlutdeild almenningssamgangna á landsbyggðinni og hvetja ferðamenn til að nota þær,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert