Slökkviliðsmenn í töluverðri hættu

Stór olíutankur var við grillskálann á Þórshöfn þegar eldurinn kviknaði. …
Stór olíutankur var við grillskálann á Þórshöfn þegar eldurinn kviknaði. Mikil mildi er að það tókst að draga hann í burtu frá brennandi húsinu. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Eldur kviknaði í grillskála N1 á Þórshöfn rétt fyrir fjögur í nótt og er ljóst að ekki er hægt að bjarga húsinu, að sögn fréttaritara mbl.is sem er á staðnum. Slökkviliðsmenn settu sig í töluverða hættu við að forða olíutanki og gaskútum af vettvangi.

Framkvæmdir hafa verið við grillskálann og svæðið í kring undanfarið og meðal annars verið að skipta um olíutanka. Vegna framkvæmdanna var stór olíutankur staðsettur við húsið en slökkviliði tókst að draga hann frá eldinum og kæla.

Engin slys urðu á fólki en mikill svartur reykur liggur yfir Þórshöfn enda milt veður á Langanesi í nótt.

Uppfært klukkan 6:52

Slökkvistarfi er lokið við grillskálann á Þórshöfn að sögn Þórarins Jakobs Þórssonar, slökkviliðsstjóra Langanesbyggðar. Hann segir slökkviliðið muni vakta húsið fram eftir degi en rannsókn á eldsupptökum sé í höndum lögreglu. Þegar slökkviliðið kom á staðinn var húsið alelda og ljóst að það var gjörónýtt. Strax var hafist handa við að forða hættulegum efnum húsinu.

Þórarinn segir að slökkviliðsmenn hafi verið í töluverðri hættu við slökkvistarfið enda 5-10 þúsund lítra olíutankur fastur við húsið að framan og fjölmargir gaskútar bæði bak við húsið og síðan litlir gaskútar inni í húsinu. 

Þegar slökkviliðsmennirnir voru að draga olíukútinn frá húsinu þá sprungu nokkrir gaskútar inni í húsinu. „Mannskapurinn var í hættu“, segir Þórarinn en allt fór vel og enginn slasaðist slökkvistarfið segir Þórarinn þegar mbl.is náði tali af honum eftir að hann hafði afhent lögreglu vettvanginn. 

Eldsvoði á Þórshöfn í nótt.
Eldsvoði á Þórshöfn í nótt. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
Frá eldsvoðanum á Þórshöfn í nótt.
Frá eldsvoðanum á Þórshöfn í nótt. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
Ekki er mögulegt að bjarga grillskálanum.
Ekki er mögulegt að bjarga grillskálanum. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
Frá eldsvoðanum á Þórshöfn í nótt.
Frá eldsvoðanum á Þórshöfn í nótt. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
Þessi mynd er tekin fyrir tveimur vikum af grillskálanum á …
Þessi mynd er tekin fyrir tveimur vikum af grillskálanum á Þórshöfn en unnið hefur verið að endurnýjun innanhúss sem utan. mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert