Fordæmalaus staða háskólanna

Staða háskólanna er mjög slæm.
Staða háskólanna er mjög slæm. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Háskólar á Íslandi eru í fordæmalausri stöðu en niðurskurður og viðvarandi undirfjármögnun ógnar öllu þeirra starfi. Rektorar allra háskóla landsins skora á þingmenn að bregðast við vandanum sem skólarnir standa frammi fyrir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem rektorar skólanna hafa sent frá sér.

„Ljóst er að þær fjárhæðir sem háskólum landsins eru ætlaðar samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi standa ekki undir því mikilvæga starfi sem skólarnir sinna. Háskólar í nágrannaríkjum okkar fá tvöfalt hærri framlög á hvern nemanda og endurspeglar það raunverulegan kostnað háskólastarfs. Til þess að ná meðaltali framlaga í OECD-ríkjunum þarf 8 milljarða kr. til viðbótar við þá fjárhæð sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og 16 milljarða kr. þarf til að ná meðaltali Norðurlandanna.

Háskólar á Íslandi eru því í fordæmalausri stöðu. Niðurskurður síðustu ára og viðvarandi undirfjármögnun ógnar öllu starfi háskólanna og kemur í veg fyrir nauðsynlega þróun. Nái fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fram að ganga í óbreyttri mynd verða háskólarnir að skerða þjónustu við nemendur og slíkum breytingum er erfitt að snúa við. Fjármögnun háskólanna verður að bæta strax á komandi ári til að valda ekki frekari skaða á starfsemi þeirra.

Rektorar allra íslenskra háskóla skora á þingmenn að bregðast við þeim bráða vanda sem skólarnir standa frammi fyrir. Nauðsynlegt er að hækka fjárframlag til háskólanna strax árið 2017 um 2 milljarða kr. svo þeir geti sinnt þeim grundvallarverkefnum sem eru fyrirliggjandi. Þá er brýnt að ráðast í að gera áætlun um fjármögnun háskólastigsins til framtíðar svo að skólarnir geti sinnt lögbundnum skyldum sínum og staðið undir mikilvægu hlutverki sínu varðandi þróun þekkingardrifins samfélags og atvinnulífs.

Í kjölfar umræðu síðustu viku viljum við, rektorar háskólanna, árétta að á undanförnum misserum hafa skólarnir ítrekað átt viðræður um stöðu og fjármögnun háskólastigsins við ráðherra, alþingsmenn, embættismenn og fjárlaganefnd og virðist óumdeilt að háskólastigið er undirfjármagnað. Þegar fimm ára fjármálaáætlun ríkisvaldsins lá fyrir í vor var ljóst að ekki yrði forgangsraðað í þágu háskólanna og óskuðum við þá eftir fundi með fjárlaganefnd Alþingis sem ekki var orðið við. Aftur var óskað eftir fundi með fjárlaganefnd til að ræða nýtt fjárlagafrumvarp en því var einnig hafnað. Í ljósi þess að háskólamenntun er lykilstoð í íslensku samfélagi og atvinnulífi er það skylda okkar að vekja athygli almennings á alvarlegri stöðu þessara stofnana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert