Klárar fangelsisdóm vegna meintrar nauðgunar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Karlmaður hefur verið dæmdur af Hæstarétti til að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut árið 2012 og 2014. Ástæðan er sú að lögreglan rannsakar meinta naugðun sem maðurinn var kærður fyrir. Átti hann eftir 630 daga fangelsisrefsingu af 5 ára dómi. Maðurinn er talinn hafa nauðgað konu og svipt hana frelsi sínu á heimili hans 10. desember.

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms frá því 22. desember um að hann skyldi klára afplánun. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að í greinargerð lögreglu hafi konan lýst atvikum þannig að hún hafi farið heim til mannsins. Þar hafi þau stundað kynlíf en hann ekki leyft henni að fara. Hún hafi þó farið í bað, en þar hafi hann síðan nauðgað henni.

Er meðal annars vísað til þess að hann hafi rekið henni bylmingshögg á vangann, skellt henni á fjóra fætur í baðinu og haft við hana endaþarmsmök. Kom fram í lýsingu konunnar að hann hafi að lokum farið með hana á ný í svefnherbergið og hafi hún  öskrað og grátið, en maðurinn reif meðal annars í hár hennar og sagði henni að gráta hærra.

Myndavélakerfi sem fæst ekki aðgangur að

Við húsleit lögreglu kom í ljós myndavélakerfi á heimili mannsins þar sem ein myndavélin beindist að svefnherbergi þess kærða þar sem brotið hafi átt að eiga sér stað. Kærði hefur ítrekað neitað að veita aðgang að því, en lögregla vinnur við að ná myndefni úr kerfinu.

Samkvæmt vottorði neyðarmóttöku kom fram áverkar á konunni, meðal annars á endaþarmi og hnjám og þá sé mar víða um líkama.

Tveimur dögum eftir meinta nauðgun kom konan á lögreglustöðina og vildi ekki gefa skýrslu og vildi draga framburð sinn til baka. Sagði hún að fyrir dómi myndi hún segja þetta allt lygi. Hún vildi ekki lenda í vandræðum og að það væri best fyrir fjölskyldu hennar.Einnig kom fram að hún hafi verið beitt þrýstingi fyrir skýrslutökuna og að eftir að kærði hafi verið handtekinn hafi „þeir komið heim með byssu.“

Vildi skipta og fá Svein Andra sem réttargæslumann

Í upphafi máls fékk konan lögmanninn Ingu Lillý Brynjólfsdóttur sem réttargæslumann og var hún viðstödd skýrslutöku á neyðarmóttökunni. Tveimur dögum síðar hafi borist umboð, dagsett deginum áður, til handa Sveini Andra Sveinssyni lögmanni þar sem konan óskaði eftir að hann yrði skipaður réttargæslumaður hennar í stað Ingu Lillý. Þá hafi fylgt umboðinu yfirlýsing sem reki málavexti á annan hátt en í skýrslutökunni á neyðarmóttöku. Þar komi jafnframt fram að kynlífið hafi verið með hennar samþykki. Þá hafi hún viljað afturkalla heimild þá sem hún gaf lögreglu til að kalla eftir læknisvottorði hjá Landspítala sem og heimild til Landspítala um að aflétta trúnaði yfir þeim gögnum.

Maðurinn neitar sök í málinu og sagði í skýrslutöku að þau hafi átt góða og villta kvöldstund saman.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms og dómi Hæstaréttar er talið rétt að maðurinn klári fyrri refsingu sína þar sem fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem geti varðað sex ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert