Vaxi í sátt við náttúru og almenning

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. mbl.is/Golli

„Það eru mörg verkefni þarna og þetta er auðvitað atvinnuvegur sem vex rosalega hratt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um framtíð ferðaþjónustunnar en Þórdís Kolbrún er ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar í nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Þórdís Kolbrún tók við lyklum að ráðuneytinu í dag.

„Mér finnst þetta ótrúlega spennandi ráðuneyti. Ég hef almennt verið upptekin af því að við séum að ræða meira um framtíðarsýn og mér finnst ráðuneytið falla mjög vel að þeirri hugsun. Þessir málaflokkar kalla á framtíðarsýn.“

Þörf á samstarfi

Ferðamálin heyra nú undir ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar en hún segir þó áfram þörf á góðu samstarfi milli fleiri ráðuneyta.

„Ég var að aðstoða Ólöfu [Nordal, fyrrverandi innanríkisráðherra] og við funduðum reglulega um þessi mál því þetta snýr auðvitað að samgöngukerfinu, merkingum og ýmsu öðru. Þetta málefni snertir mörg ráðuneyti og kallar áfram á mikið samstarf á milli þeirra.“

Þórdís Kolbrún segist ekki geta sagt til um hvað sé fram undan í aðkomu ráðuneytisins að ferðamálum þar sem hún hefur ekki enn haft tækifæri til að skoða stöðuna eins og hún er í dag.

„Við viljum að [atvinnuvegurinn] vaxi áfram en hann verður auðvitað að gera það í góðri sátt við náttúru og almenning. Þetta er spennandi þótt þetta sé stórt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert