Allir geti tekið þátt í leitinni

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir. Mynd/Lögreglan

Enn hefur ekkert spurst til Birnu Brjánsdóttur sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í gærkvöldi. Hún hefur ekki sést síðan á milli klukkan tvö og þrjú aðfaranótt laugardags á skemmtistaðnum Húrra, en síðast var kveikt á síma hennar í Flatahrauni í Hafnarfirði á sjötta tímanum í gærmorgun. Þessi staðsetning er eina vísbendingin um hvarf Birnu.

Móðir Birnu segir í samtali við mbl.is að hún gangi nú á milli húsa í Flatahrauni með mynd af dóttur sinni og spyrji fólk hvort það hafi séð hana. Vinir dóttur hennar og fleiri ættingjar eru með í för, en engin skipulögð leit er í gangi að sögn móðurinnar. Hún segir þó að allir sem vilja taka þátt í leitinni sé velkomið að vera með. „Ef fólk hefur tök á að taka þátt í leitinni þá væri það dásamlegt,“ segir hún. Þá bætir hún við að það hafi verið nefnt við sig að gagnlegt gæti verið að leita í einnig Heiðmörk. 

Lög­regla lýsti fyrst eftir Birnu í gærkvöldi en ítrekaði auglýsinguna á Facebook-síðu sinni nú síðdegis. Birna er fædd árið 1996, er 170 cm há, um það bil 70 kg og með sítt rauðleitt hár. Birna var klædd í svart­ar galla­bux­ur, ljósgráa peysu, svart­an flís­jakka með hettu og svarta Dr. Mart­in-skó.

Upp­lýs­ing­ar um ferðir Birnu ber­ist til lög­reglu í síma 444-1000.

Frétt mbl.is: Lögreglan leitar að Birnu Brjánsdóttur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert