Lögreglan nýtur samstarfs grænlensks togara við leit að Birnu

Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn.
Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Íslenska lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort einn eða fleiri í áhöfn togarans Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um unga konu sem er leitað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Polar Seafood, útgerð togarans. Samkvæmt frétt RÚV er útgerðarstjórinn, Jørgen Fossheim, á leið til Íslands frá Danmörku.

„Þegar við komumst að því að íslenska lögreglan hefði greint mögulega tengingu milli hvarfs ungu konunnar og togarans Polar Nanoq, sendum við strax boð um að togaranum skyldi snúið aftur til Íslands og settum okkur þegar í samband við yfirvöld,“ segir í tilkynningu útgerðarinnar. „Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni.

Sem fyrirtæki styðjum við áhöfn okkar og veitum henni hverja þá hjálp sem þörf er á.

Málið verður vonandi sem fyrst upplýst að fullu. Fram að þeim tíma höfum við ekki meira um það að segja,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt heimildum mbl.is er m.a. verið að skoða hvort skipverjar á togaranum hafi tekið rauðan Kia Rio á leigu, bíl sambærilegan þeim sem sást á eftirlitsmyndavélum á sama tíma og Birna Brjánsdóttir, að morgni laugardags. Samkvæmt heimildum voru fjórir rannsóknarlögreglumenn fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð í danska varðskipið Triton í gærkvöldi. Danski herinn hefur staðfest við mbl.is að íslensk lögregluyfirvöld hafi óskað eftir aðstoð þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert