Halda áfram leit á Reykjanesi

Björgunarsveitarfólk að störfum.
Björgunarsveitarfólk að störfum. mbl.is/Eggert

Ákveðið hefur verið að sérhæft leitarfólk frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldi áfram leit á og við vegaslóða á Reykjanesi nú síðdegis og fram eftir kvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Fleiri en einn hundur hafa sýnt áhuga á svæðinu að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns, en töluvert hefur verið leitað á svæðinu án árangurs. Nú um klukkan 5 fer í loftið þyrla Landhelgisgæslunnar og mun hún fljúga yfir svæðið. 

Aðgerðastjórn björgunarsveitanna vinnur náið með lögreglu að leitinni og vinnur meðal annars úr þeim fjölda vísbendinga sem lögreglunni hefur borist vegna málsins að því er fram kemur í tilkynningunni. Leitarsvæði björgunarsveitanna hafi verið ákvörðuð út frá þessum vísbendingum almennings.

Aðspurður hvort vísbendingar hafi einnig komið fram í yfirheyrslum eða á skipinu segir Ásgeir að aðallega sé verið að vinna úr vísbendingum frá almenningi. „Við erum að leita af okkur grun á svæðum. Það stefnir í að við þurfum að fara í mjög stóra leit um helgina og við erum bara að vinna okkur í haginn með það,“ segir hann. 

Þá segir hann það hafa verið misskilning í dag að leit hafi verið hætt. „Það var aðeins hlé á verkefnum en leitinni var ekki hætt.“

Þá sé lögreglan enn að vinna úr myndavélagögnum sem geti hjálpað til við að kortleggja leitina betur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert