Staða rannsóknarinnar í hnotskurn

Lík Birnu Brjánsdóttur fannst í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi …
Lík Birnu Brjánsdóttur fannst í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi um kl. 13 í dag. Um 725 björgunarsveitarmenn hafa tekið þátt í leitinni að henni síðustu daga. mbl.is/Eggert

Yfirgnæfandi líkur eru taldar á því að Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin í dag, hafi verið ráðinn bani. Þá eru einnig taldar yfirgnæfandi líkur á því að skipverjarnir tveir af Polar Nanoq beri ábyrgð á því.

Um kl. 13 í dag kom áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, auga á lík í fjörunni, rétt vestur af Selvogsvita á Reykjanesi. Rannsóknarlögreglumenn og sérhæfðir björgunarsveitarmenn komu á vettvang í kjölfarið. Á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kl. 17 í dag var svo upplýst að um Birnu væri að ræða. Enn á þó kennslanefnd ríkislögreglustjóra eftir að staðfesta það með frek­ari rann­sókn­um. Hægt er að horfa á blaðamannafundinn í heild sinni hér.

Var saknað í rúmlega átta sólarhringa

Birna Brjánsdóttir var tvítug.
Birna Brjánsdóttir var tvítug.

Birna var tvítug, fædd 28. nóvember árið 1996. Hún fór út að skemmta sér ásamt vinkonu sinni föstudagskvöldið 13. janúar. Þegar hún mætti ekki til vinnu morguninn eftir höfðu foreldrar hennar samband við lögregluna. Lýst var eftir henni seint um kvöldið. Á sunnudeginum sagði lögreglan frá því að Birna sæist á eftirlitsmyndavélum á Laugavegi kl. 5.25 að morgni laugardagsins.

Svo spurðist ekkert til hennar í rúmlega átta sólarhringa eða þar til í dag að hún fannst látin.

Hér að neðan er farið yfir það helsta sem lögreglan hefur upplýst um gang og stöðu rannsóknarinnar:

  • Blóðið sem fannst í Kia Rio-bíl sem lögreglan lagði hald á síðasta þriðjudag var úr Birnu. Skipverjarnir tveir, sem handteknir voru á miðvikudag og úrskurðaðir í gæsluvarðhald sólarhring síðar, voru með bílinn á leigu.
  • Bíllinn er að öllum líkindum sá hinn sami og sást á Laugavegi á sama stað á nánast sama tíma og Birna.
  • Mennirnir vita að lögreglan fann blóð í bílnum, en hafa ekki vitneskju um að staðfest sé að það hafi verið úr Birnu. Að minnsta kosti hafa þeir ekki fengið þær upplýsingar frá lögreglunni.
  • Mennirnir vita heldur ekki að lík Birnu hafi nú fundist.
  • Ekki er hægt að fullyrða á þessari stundu hver dánarorsök Birnu var. Lögregla telur það þó liggja fyrir innan nokkurra daga.
  • Þá er ekki enn hægt að segja til um hvenær hún lést.
  • Það er hins vegar talið líklegt að hún hafi dáið í bíl mannanna en honum skiluðu þeir á bílaleiguna um miðjan dag síðasta laugardag, 14. janúar.
  • Leitað er að vopni þar sem talið er mögulegt að einhvers konar vopn hafi verið notað við verknaðinn.
  • Ekki er hægt að segja til um á þess­ari stundu hvort Birna hafi verið beitt kyn­ferðisof­beldi.
    Lögreglan fylgir skipverjunum tveimur, sem grunaðir eru um að hafa …
    Lögreglan fylgir skipverjunum tveimur, sem grunaðir eru um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana, frá borði Polar Nanoq á miðvikudagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
  • Enn eru eyður í ferðum rauða bílsins að morgni laugardags eða á milli kl. 7 og 11.30 er hann sést ekki inni á hafnarsvæði Hafnarfjarðarhafnar. Lögregla er þó langt komin með að rekja ferðir bílsins.
  • Ekki er því enn vitað með vissu hvaða leið mennirnir óku í átt að Selvogsvita eða þeim stað þar sem Birna fór í sjóinn.
  • Lögregla þræðir nú staði á þeim leiðum sem hún telur mennina mögulega hafa farið í átt að Selvogsvita í leit að myndbandsupptökum.
  • Talið er mögulegt að skór Birnu sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn hafi verið settir þar til að afvegaleiða lögreglu.
  • Þyrla Landhelgisgæslunnar var í lágflugi meðfram ströndinni með sérhæfða leitarmenn þegar hún fann Birnu. 
  • Talið er líklegra en ekki að lík Birnu hafi rekið þar upp í fjöruna og að henni hafi verið komið fyrir í sjó, eða á, annars staðar.
  • Meðal þess sem verið er að skoða er hvort henni hafi verið komið í sjóinn af Óseyrarbrú, skammt frá Þorlákshöfn.
  • Lögregla skoðar hafstrauma á svæðinu með aðstoð sérfræðinga Veðurstofunnar og heimamanna til að reyna að finna hvar Birna var sett í sjóinn.
  • Talið er víst að Birna þekkti mennina tvo ekkert og að þau hafi ekki verið í samskiptum áður.
  • Mennirnir tveir sem eru í haldi eru á þrítugsaldri. Þeir eru báðir grænlenskir. 
  • Yfirheyrslum yfir þeim verður framhaldið á morgun eða þriðjudag.

Hvarf Birnu Brjánsdóttur hefur snert við öllum Íslendingum. Í kvöld hafa hundruð þeirra vottað fjölskyldu hennar og vinum samúð, m.a. með því að birta myndir af logandi kertum á samfélagsmiðlum.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom auga á lík í sjónum við …
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar kom auga á lík í sjónum við Selvogsvita í dag. Kort/mbl.is



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert