Enn hræddur í vondu veðri

Hvolparnir tveir sem voru skildir eftir á Kjalarnesi fyrir jólin …
Hvolparnir tveir sem voru skildir eftir á Kjalarnesi fyrir jólin braggast vel.

Tveir hvolpar sem fundust á Kjalarnesi við illan leik, kaldir, hraktir og vannærðir 15. desember braggast ágætlega. Hvolp­arn­ir, sem voru 10-12 vikna gamlir, fundust undir kyrrstæðum bíl á Kjalarnesi og höfðu verið skild­ir þar eft­ir bjarg­ar­laus­ir ná­lægt þjóðveg­in­um. „Þetta fór mjög vel. Hvolparnir fengu fljótt nýja eigendur og öruggt heimili,“ segir Hanna Arnórsdóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ, sem tók við hvolpunum.

Mat­væla­stofn­un hef­ur kært verknaðinn til lög­reglu. Líklega voru þeir að minnsta kosti þrír talsins en einn hvolpur fannst dauður við þjóðveginn en keyrt hafði verið á hann. Líklegt þykir að hann hafi verið úr sama goti. Ung stúlka og foreldrar hennar fundu hvolpana og komu með þá undir hendur dýralækna. 

Frétt mbl.is: Hvolp­ar born­ir út á Kjal­ar­nesi

Þegar hvolparnir komu voru þeir hræddir, vannærðir, belgmiklir og rýrir yfir bakið, að sögn Hönnu. Þeir voru einn sólarhring á spítalanum en fóru svo hvor á sitt  fósturheimilið og úr varð að bæði heimilin tóku þá að sér. Annar eigandinn er dýralæknir og hinn eigandann þekkir starfsfólk dýraspítalans vel.

Hanna Arnórsdóttir dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ.
Hanna Arnórsdóttir dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ. mbl.is/Þórður Arnar

Skelfur af hræðslu þegar veðrið er vont 

Þrátt fyrir að hvolparnir braggist og hafi fóðrast vel eftir að þeir komust á öruggt heimili glíma þeir enn við afleiðingarnar. Þeir voru teknir úr öruggu umhverfi og skildir eftir úti í vondu veðri, kulda og talsverðri úrkomu. Þegar þeir fundust voru þeir örlítið hræddir við menn en báru þess samt merki að hafa verið í kringum fólk. Þeir hafa líklega verið í útihúsi eða hesthúsi af lyktinni að dæma, að sögn Hönnu.  

„Annar þeirra skelfur þegar hann á að fara út í vondu veðri. Hann neitar að fara út og leggst niður. Hann man líklega hvað hann upplifði þegar hann var skilinn eftir en það er hægt að vinna með það,” segir Hanna og bætir við að eigendur hafi náði gríðarlega góðum árangri á stuttum tíma með hvolpana.  

Hvolparnir eru blendingar. Annar er svartur og hvítur og hinn nokkuð sérstakur á lit, bröndóttur, og af útliti og feldi þeirra að dæma eru þeir líklega af tegundinni border collie og mögulega boxer. 

Hvolpar. Mynd úr safni.
Hvolpar. Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Ekki mörg svona tilfelli

„Við fáum sem betur fer ekki oft dýr sem hafa verið skilin svona eftir,“ segir Hanna. Algengara er að kettir séu skildir eftir með þessum hætti en hundar. Flestir sem finna sjálfir dýrin auglýsa eftir eigendum dýranna og þar er máttur Facebook og annarra miðla öflugur, að sögn Hönnu. Í kjölfarið býðst fólk oft til að taka dýrin að sér. 

Hanna getur ekki nefnt dæmi um fjölda sambærilegra tilfella sem hafa komið inn á borð til dýraspítalans. Hún bendir hins vegar á að dýralæknar og starfsmenn á stofunni þurfi stundum að tilkynna um illa meðferð á dýrum til Matvælastofnunarinnar. Í þeim tilvikum er oftar um hunda en ketti að ræða. Í því samhengi bendir hún á að mögulega þyrfti Matvælastofnun að fá fleiri starfsmenn til liðs við sig til að vinna úr öllum tilkynningunum.  

Tilkynningarnar eru um 10-20 sem dýraspítalinn tilkynnir um árlega. Um 90% þeirra tilvika eru hundar. Helsta ástæðan fyrir því er sú að hundar sýna frekar merki um illa meðferð eins og til dæmis ummerki um notkun rafmagnsóla. Kattareigendur sem hugsa á annað borð ekki vel um dýrið sitt mæta hvort sem er ekki með það til dýralæknis, segir Hanna.

99% dýraeigenda góðir eigendur

Vandinn er að minnsta kosti ekki að aukast,“ segir Hanna og tekur fram að 99% af dýraeigendum séu góðir eigendur. „Fólk er upplýst og skilur betur atferli dýra.“ Hinn almenni borgari er einnig orðinn meðvitaður um gott dýrahald og er duglegur að láta vita ef grunur leikur á um dýraníð. Á vefsíðu Matvælastofnunar er hægt að koma með nafnlausar ábendingar ef grunur leikur á um illa meðferð á dýrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert