Erfitt að ímynda sér að þeir séu sekir

Tveir skipverjar af togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi, grunaðir …
Tveir skipverjar af togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana.

„Ég trúi því að þeir séu saklausir uns annað verður sannað og ég á mjög erfitt með að ímynda mér að þeir séu sekir,“ segir Jørgen Fossheim, útgerðarstjóri Polar Seafood, sem gerir út togarann Polar Nanoq, í viðtali við TV 2 í Danmörku, um skipverjana tvo af togaranum sem eru í haldi lögreglunnar, grunaðir um að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana.

Hann segir öðrum skipverjum togarans líða illa og að þeir hafi fengið áfallahjálp undanfarna daga. Hann segir að þeir hafi dvalið á hóteli í Reykjavík á meðan rannsókn lögreglunnar hefur staðið. 

Fréttin er skrifuð í gær og er þá haft eftir Fossheim að hann viti ekki hvenær Polar Nanoq fái heimild til að sigla frá Íslandi. Áhafnarskipti voru fyrirhuguð í gær.

Fólk með peninga að baki smyglinu

Fossheim er einnig spurður út í fréttirnar um hassfundinn um borð í Polar Nanoq en við leit um borð í skipinu í síðustu viku fundust um 20 kíló af hassi. Einn maður var handtekinn vegna þess máls sérstaklega en honum var síðar sleppt.

„Það hlýtur að vera fólk með peninga sem skipuleggur þetta,“ segir Fossheim um fíkniefnasmyglið. „Þetta er ekki grænlenskur sjómaður sem keypti hassköggul í Kristjaníu til að taka með sér heim. Þarna eru fagmenn að verki og að baki fullt af peningum.“

Fréttamaður TV 2 spyr Fossheim hvort hann hafi stjórn á því sem fram fari um borð í togaranum, fyrst þessi mál séu komin upp?

„Ég tel að við höfum það,“ svarar Fossheim.

- En þetta mál bendir nú til annars?

„Við höfum aldrei upplifað neitt þessu líkt áður, en við höfum stjórn á því sem fram fer í skipinu og við höfum góða stjórnendur,“ segir Fossheim.

Í fréttinni kemur fram að Fossheim sé enn staddur á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert