Fátt nýtt komið fram í rannsókninni

mbl.is/Eggert

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn á von á því að tvímenningarnir, sem sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að eiga aðild að andláti Birnu Brjánsdóttur, verði yfirheyrðir síðar í dag. Lítið hefur breyst hvað varðar rannsókn málsins frá því í gærkvöldi en áfram er unnið úr þeim gögnum sem fyrir liggja.

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir. Facebook

Síðdegis í gær kom réttarmeinalæknir til landsins sem annast slíkar rannsóknir hér á landi og segir Grímur ekki rétt að fjalla um þá rannsókn, hvorki hvort henni sé lokið né heldur hvað hafi komið fram.

Aðrir fjölmiðlar hafa birt nöfn mannanna sem eru sakaðir um aðild að málinu en Grímur segir að lögreglan staðfesti ekki slíkar upplýsingar. Að minnsta kosti ekki að svo stöddu.

RÚV greindi frá því í gærkvöldi að ann­ar mannanna hafi farið um borð í tog­ar­ann Pol­ar Nanoq á milli klukk­an 6 og 7 morg­un­inn sem Birna hvarf. Hinn ók einn í burtu. Þetta hafði áður komið fram í frétt mbl.is þann 19. janúar.

Sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is fara báðir menn­irn­ir út úr bíl sín­um á hafn­ar­svæðinu. Nokkru síðar fer ann­ar þeirra um borð í tog­ar­ann en hinn ekur í burtu. Samkvæmt frétt RÚV ekur hann um hafn­ar­svæðið en síðar ekur hann þaðan í burtu. Hann snýr ekki aft­ur fyrr en nokkr­um klukku­stund­um síðar.

Ekki er að sjá á mynda­vél­um að sá sem fór um borð í skipið hafi aft­ur farið inn í bíl­inn. Grímur vildi ekki staðfesta þetta í samtali við mbl.is í morgun. 

Hæstiréttur staðfesti í gær tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir mönnunum tveimur og féllst því ekki á beiðni lögreglunnar um að þeir yrðu í gæsluvarðhaldi í fjórar vikur líkt og óskað var eftir í upphafi.

Mennirnir voru í gærkvöldi enn ómeðvitaðir um að Birna væri fundin. Rannsókn málsins er enn í fullum gangi en lögregla ræddi lítið við fjölmiðla í gær. Þá kom austurrískur réttarmeinalæknir til landsins í gær en hann annast krufningu Birnu. Ekki hefur enn verið greint frá dánarorsök.

Það sem hefur komið fram er að blóð úr Birnu hafi fundist í rauða Kia Rio-bílnum sem tvímenningarnir höfðu á leigu þessa helgi. 

Fjöldi fólks hefur sent fjölskyldu Birnu og vinum hennar samúðarkveðjur. Meðal þeirra sem sent hafa kveðju eru ráðherrar í íslensku ríkisstjórninni og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. „Orð fá ekki linað hina miklu sorg en minningin um Birnu, þessa ungu og björtu stúlku, sem var tekin frá okkur í blóma lífsins, mun ætíð lifa með íslenskri þjóð,“ skrifar Guðni í tilkynningu sem birtist á vef forsetaembættisins. Þá þakkaði forsetinn björgunarsveitum, lögreglu og öðrum þeim er komu að leitinni að Birnu með einum eða öðrum hætti. Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, sendi Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra Íslands, bréf þar sem hann segir hug Grænlendinga vera með íslensku þjóðinni.

Birna hvarf 14. janúar en á sunnudag fannst hún látin í fjörunni við Selvogsvita á Reykjanesi. Skipulögð hefur verið sérstök ganga í minningu Birnu um helgina. Gengið verður frá Laugavegi 31, þaðan sem Birna sást síðast í eftirlitsmyndavélum, kl. 16:00 á laugardag og niður að Tjörn þar sem kertum verður fleytt í minningu Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert