Hjól fyrir hælisleitendur

Línus Orri Gunnarsson.
Línus Orri Gunnarsson.

„Það er magnað hvað viðbrögðin hafa verið góð og fólk verið fljótt að bregðast við,“ segir Línus Orri Gunnarsson. Um hádegisbilið í gær óskaði hann eftir að fá gefins 12 hjól fyrir hælisleitendur. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og nokkrum klukkutímum síðar var hann kominn með tíu hjól, sendibíl og ótal fyrirheit um að veita verkefninu lið. Hann segir verkefnið vera til þess fallið að margir geti og vilji láta gott af sér leiða með þessum hætti. 

Hjólin eru eins og fyrr segir fyrir hælisleitendur sem búa í Sólheimum nálægt Skeifunni. „Ég vil gera það sem ég get til að rjúfa einangrunina sem hælisleitendur búa við. Það er mikilvægt að þeir komist inn í samfélagið,“ segir Línus Orri. Hann segir dýrmætt fyrir þennan hóp fólks að ná að kynnast Íslendingum. Að ferðast um á hjóli er tilvalin leið til að ná fótfestu í nýju landi.  

Hælisleitendur einangraðir

Sjálfur þekkir Línus vel til hælisleitenda og hefur talsvert verið í félagskap þeirra. Hann sér meðal annars um að skipuleggja vikulegan kvöldverð fyrir þá. Hann gagnrýnir þá stöðu sem þessir einstaklingar búa við hér á landi og segir þá vera mjög einangraða. „Stefnan hér gagnvart þeim er mjög einangrandi. Þeir mega ekki fá heimsóknir. Enginn annar hópur á Íslandi býr við þessi skilyrði,“ segir Línus og bendir á í þessu samhengi að fangar megi fá heimsóknir.

Hann segir viðhorf ríkisins til þeirra hér á landi vera „grimmt“ og segir hælisleitendur líka vera flóttamenn líkt og kvótaflóttafólk sem kemur til landsins. Hann bendir á að þegar umsóknir þeirra eru teknar til skoðunar sé sífellt verið að rengja það. „Þegar þú ert á flótta frá heimalandi þínu þá nærðu þér ekki fyrst í alla pappíra með tilheyrandi stimplum og fæðingarvottorð,“ segir hann og bendir á að þessi skilyrði sem íslenska ríkið setur beri vott um vanskilning á heimalandi þeirra. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert