Skoða sameiginleg norræn mótmæli

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ætlar að ræða við norræna starfsbræður sína næstu daga og ræða hvort tilskipun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að banna fólki frá ákveðnum ríkjum í Miðausturlöndum að koma til Bandaríkjanna verði mótmælt sameiginlega á norrænum vettvangi.

Greint var frá þessu í Morgunblaðinu í morgun.

Tilskipuninni hefur verið mótmælt víða um heim. Guðlaugur sagði í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 2 í morgun að það sé ekki í samræmi við það sem vestræn ríki hafa staðið fyrir þegar ákveðin lönd séu tekin fyrir á þennan hátt.

Öllu máli skipti að það sé góð samtaða meðal vestrænna þjóða bæði þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, mannréttindamálum og frjálsum heimsviðskiptum. „Ef Bandaríkin myndu breyta í grundvallaratriðum í þeirri stefnu hefði það mikil áhrif, og ekki jákvæð áhrif,“ sagði Guðlaugur.

Þarf að berjast fyrir því góða í heiminum

Áður hafði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tjáð sig um tilskipun Trump á Facebook-síðu sinni í gær. Sagði hann að það væri þyngra en tárum taki að upp­lifa þá mis­mun­um og mann­vonsku sem nýr Banda­ríkja­for­seti leyfi sér að inn­leiða gagn­vart inn­flytj­end­um og flótta­mönn­um. „Mót­mæl­um öll,“ skrif­aði Ótt­arr.

Frétt mbl.is: „Mótmælum öll“

Ótt­arr hvet­ur fólk til að halda þessu til haga. „Það þarf að berj­ast fyr­ir því góða í heim­in­um. Það sigr­ar ekki af sjálfu sér.“

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra skrifaði á Facebook-síðu sína í gær að það væri hræðilegt að hugsa til þess hvernig komið er fyr­ir Banda­ríkj­un­um, þar sem for­dóm­ar ráði nú ríkj­um.

Frétt mbl.is: „Fáfræði og fljótræði stýra för“

„Íslend­ing­ar hljóta all­ir að styðja frelsið og lýsa vanþókn­un á stefnu og aðgerðum Trumps,“ skrif­ar Bene­dikt á Face­book-síðu sinni.

Jóna Sólveig Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði í Morgunblaðinu í dag að ákveðið hefði verið að nefndin ræði á fundi sínum á fimmtudag aðgerðir Bandaríkjaforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert