Samstarf við Sanna landvætti ólíklegt

Gjaldtaka við Seljalandsfoss hefur verið til umræðu.
Gjaldtaka við Seljalandsfoss hefur verið til umræðu.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir mjög ólíklegt að landeigendur við Seljalandsfoss muni starfa með fyrirtækinu Sannir landvættir sem hefur verið sett á fót.

Félagið hyggst bjóða landeigendum ferðamannastaða að stofna með þeim rekstrarfélög utan um uppbyggingu og rekstur samhliða gjaldtöku fyrir þjónustu á viðkomandi ferðamannastöðum.

Frétt mbl.is: Félag til uppbyggingar ferðamannastaða

Arnór Þ. Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra landvætta, sagði að horft verði til staða um allt land og nefndi Seljalandsfoss og Skógarfoss sem dæmi.

Að sögn Ísólfs Gylfa hefur sveitarfélagið ekki rætt við félagið um einhvers konar samstarf.

„Landvættina höfum við ekki rætt við. Það hafa dúkkað upp mörg svona fyrirtæki sem hafa verið að bjóða svipað,“ segir hann.

Ísólfur nefnir að eignarhaldið á svæðinu við Seljalandsfoss og Skógarfoss sé nokkuð sérstakt. Í tilfelli Seljalandsfoss er um að ræða fjögur býli, auk sveitarfélagsins, og öll samskipti við fyrirtæki sem þessi þurfi að fara í gegnum alla eigendur landsins.

Hvað Skógarfoss varðar eru það héraðsnefndir Rangárvallarsýslu og V-Skaftafellssýslu, sem samanstanda af fimm sveitarfélögum, sem eiga það svæði.

Að sögn Ísólfs er Rangárþing eystra í samvinnu við landeigendur að Seljalandsfossi að vinna að stofnun sameignarfélags um það svæði.

„Ég myndi segja að það væri mjög ólíklegt,“ segir hann, spurður hvort unnið verði með Sönnum landvættum að því verkefni.

Frétt mbl.is: Bílastæðagjöld greiða fyrir uppbyggingu

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mun ekki sætta sig við „glápugjöld“

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að samtökin hafi talað fyrir gjaldtökufyrirkomulagi sem tryggir virðisaukandi þjónustu.

Spurð út í fyrirtækið Sanna landvætti segir hún að svo virðist sem það ætli að tryggja uppbyggingu á virðisaukandi þjónustu sem svo sé hægt að taka gjald fyrir.

„Við höfum talað fyrir slíku fyrirkomulagi.  Mikilvægt er þó að horft sé einnig til reksturs og viðhalds viðkomandi svæða til framtíðar,“ segir Helga.

„Eins og kemur fram í fréttatilkynningunni frá Sönnum Landvættum er mögulegt að hefja uppbygginu um leið og skipulag svæða leyfir.  Þá má heldur ekki gleyma að skoða lagaumhverfið, það getur oft á tíðum verið flókið en mikilvægt er að skoða þá þætti áður en lagt er af stað,“ segir hún og bætir við að öll uppbyggingin sem horfir til þess að tryggja upplifun gesta, þjónustu og gæði sé af hinu góða.

„Glápugjöld eða hlið við hvern foss er eitthvað sem hvorki ferðaþjónustan né gesturinn sjálfur mun sætta sig við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert