Telja Birnu hafa drukknað

Leitað var í gær í flæðarmálinu skammt frá þeim stað …
Leitað var í gær í flæðarmálinu skammt frá þeim stað þar sem Birna fannst. mbl.is/Eggert

Lögregla telur að Birna Brjánsdóttir hafi drukknað. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV sem segist einnig hafa heimildir fyrir því að krufning bendi til þess að Birna hafi verið með lífsmarki þegar hún lenti í sjónum. Þá eru sagðir hafa fundist áverkar sem benda til þess að þrengt hafi verið að hálsi Birnu.

Lokaskýrsla vegna krufningar liggur enn ekki fyrir en RÚV segist hafa heimildir fyrir því að hún muni ekki breyta þessari niðurstöðu. Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu hafi vatn fundist í lungum Birnu.

Í frétt RÚV er Birna sögð hafa verið nakin þegar hún fannst.

Ekki liggi hins vegar fyrir hvort banamaður Birnu hafi vitað að lífsmark var með henni þegar hann lét hana í sjóinn.

Þá er lögregla sögð telja að ofbeldi gegn Birnu hafi ekki hafist fyrr en eftir að sá skipverji sem látinn var laus úr gæsluvarðhaldi í lok síðustu viku var farinn úr bílnum.

RÚV segist hafa heimildir fyrir því að lögregla telji ólíklegt að vopni hafi verið beitt.

Rannsókn á sjávarstraumum og vindátt er sögð benda til þess að Birna hafi verið sett í sjóinn vestan við Selvogsvita, þar sem hún fannst í fjörunni átta dögum eftir að hún hvarf.

Von á niðurstöðum úr lífsýnarannsókn hvað úr hverju

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, sem fer með rannsóknina á andláti Birnu, sagði í samtali við mbl.is nú fyrir stundu að lögregla tjái sig ekki um dánarorsök Birnu og að ekki liggi fyrir hvort gerð verði grein fyrir niðurstöðum krufningar.

Grímur segir þó rétt að lokaskýrsla vegna krufningar liggi ekki fyrir en að lögregla vonist til að svo verði í vikunni. Þá sé ólíklegt að lokaskýrslan muni breyta einhverju um kenningar lögreglu um hvað gerst hafi.

Engar niðurstöður eru enn komnar úr rannsóknum á lífsýnum sem lögregla hefur tekið við rannsókn sína, öðrum en blóði Birnu sem fannst í bílaleigubílnum. „Ég býst við að við getum átt von á niðurstöðum úr þeim hvað úr hverju en það hefur alls ekki verið tekin nein ákvörðun um hvort greint verði frá þeim,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert