Líktu hælinu við dýragarð og sláturhús

Kópavogshæli árið 2003 áður en endurbætur voru gerðar á húsinu.
Kópavogshæli árið 2003 áður en endurbætur voru gerðar á húsinu. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Móðir barns sem var vistað fjögurra ára á fullorðinsdeild á Kópavogshæli sagði í skýrslu vistheimilanefndar um vistun barna á hælinu að aðstæður þar hafi verið hörmulegar.

„Hún sagði frá því að vistmaður hefði kveikt í X sem var fluttur á sjúkrahús illa brenndur. Það hefði enginn verið að passa þessi börn,“ segir í skýrslunni.

Móðir barns sem var vistað 10 ára á fullorðinsdeild sagðist í einni heimsókn „hafa komið að X bundnum við rúmið, hefði hún losað hann en talið ljóst að hann yrði bundinn aftur um leið og hún færi“.

„Skelfileg upplifun“

Systir barns sem var vistað 10 ára á fullorðinsdeild sagði að heimsókn sín á  Kópavogshæli „hefði verið skelfileg upplifun, hryllingur, eins og að koma í dýragarð.  X hefði verið innan um fullorðið fólk og alltaf verið með sár þar sem aðrir réðust á hann.“

Í skýrslunni kemur fram að bróðir barns sem var vistað 12 ára á fullorðinsdeild hafi sagt að Kópavogshæli hefði virkað á sig eins og sláturhús.  „X hefði verið settur þarna með fullorðnum ofbeldisfullum karlmönnum. Sagði hann móður hafa beðið um flutning á aðra deild en ekkert verið hlustað á það.“

Vistheimilanefnd afhenti dómsmálaráðherra skýrslu í gær.
Vistheimilanefnd afhenti dómsmálaráðherra skýrslu í gær. mbl.is/Golli

Eins og fangelsi eða fangabúðir

Móðir barns sem var vistað tveggja ára á barnadeild lýsti aðstæðum og aðkomu á hælið „eins og að vera komin í fangelsi eða fangabúðir, meðal annars allar hurðir læstar og engar dyrabjöllur. Hún sagðist hafa grátið þegar hún nálgaðist hælið, sagðist ekki muna mikið og vildi helst þurrka þennan tíma úr minninu. Rifjaði hún upp atvik þar sem X, tæplega 4 ára, var ein lokuð og læst inni í herbergi, bundin á öðrum fæti við rimlana á rúminu, var móður sagt að þetta þyrfti að gera til að X færi ekki upp úr rúminu“.

Systir barns sem var vistað 6 ára á barnadeild lýsti hegðunarerfiðleikum X. „Að handleggir X hefðu stundum verið bundnir upp en hún hefði talið það eðlilegt og ekkert annað til ráða.“

Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað.
Húsnæði gamla Kópavogshælis hefur lengi staðið ónotað. mbl.is/Golli

„Við dauðans dyr vegna næringarskorts“

Alls sögðu 32 viðmælendur frá skorti á að mæta líkamlegum, tilfinningalegum, vitsmunalegum og félagslegum þörfum barns.

Nokkrir gagnrýndu að allar tennur hefðu verið dregnar úr vistfólki, auk þess sem móðir barns sem var vistað 17 ára á fullorðinsdeild „sagði vistun hafa verið hreina hörmung. Meðal annars hefði gengið mjög illa að næra X, X oft við dauðans dyr vegna næringarskorts og þurft aðgerðir vegna legusára“.

Systir og mágkona barns sem var vistað 11 ára á fullorðinsdeild lýstu aðstæðum sem „ skelfilegum, hræðilegum og hreint út sagt ömurlegum. Deildir hefðu verið undirmannaðar og ekkert fagfólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert