Talsverðar skemmdir í Bláfjöllum

Þakkantur fauk af í Bláfjöllum í gær.
Þakkantur fauk af í Bláfjöllum í gær. Ljósmynd Einar Bjarnason

Talsverðar skemmdir urðu í Bláfjöllum í óveðrinu í gær. Meðal annars brotnuðu rúður, færiband rifnaði upp þrátt fyrir að vera fest niður og hurð fór af hjörum. Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum, segir að mælirinn á skálanum hafi farið yfir 50 metra á sekúndu í verstu hviðunum og allt hafi leikið á reiðiskjálfi. 

Rúður brotnuðu í skálum í Bláfjöllum í gær.
Rúður brotnuðu í skálum í Bláfjöllum í gær. Ljósmynd Einar Bjarnason

Einar er öllu vanur þegar kemur að óveðri í Bláfjöllum því hann hefur starfað í meira en áratug á svæðinu. Hann segir að hurðin sem fór af hafi verið læst með þriggja punkta læsingu en allt kom fyrir ekki og hún lét undan veðurofsanum.

„Þetta er miklu meira en maður skilur og sýnir hvað veðurofsinn var mikill hér í gær. Þetta eru ótrúlegar skemmdir sem hafa orðið,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Mikil bleyta var í brekkunum í Bláfjöllum en þar er …
Mikil bleyta var í brekkunum í Bláfjöllum en þar er allt í fullum gangi við að undirbúa opnun síðar í dag. Ljósmynd Einar Bjarnason

Hann segist alltaf vera jafnundrandi á því hvað vindhraðinn getur orðið mikill á Bláfjallasvæðinu og tjónið stundum meira en núna og rifjar upp þegar allir vírar í lyftum fóru af í einu óveðri. Eins flækjast alltaf diskarnir saman í diskalyftunum þegar rokið er jafnmikið og tók töluverðan tíma að greiða úr flækjunni eftir að veðrinu slotaði í gær.

Að sögn Einars var gert við allar skemmdir á húsnæði í gærkvöldi, bæði þakkant og brotnar rúður og hurðir. Eins voru starfsmenn skíðasvæðisins að störfum í alla nótt við að keyra í gegnum hengjur fyrir ofan skíðasvæðið til þess að varna því að snjóflóð falli á fólkvanginum. 

Brotin rúða í skíðaskála í Bláfjöllum.
Brotin rúða í skíðaskála í Bláfjöllum. Ljósmynd Einar Bjarnason

Það rigndi gríðarlega í Bláfjöllum í gær og mikil bleyta í brekkunum. Að sögn Einars er staðan hins vegar betri í þeim en útlit var fyrir í gærkvöldi þar sem mesti vatnselgurinn hafi sjatnað. Vinna við að troða skíðabrekkurnar er hafin en Einar á ekki von á því að hægt verði að opna fyrr en eftir hádegið. Þrátt fyrir skemmdir er Einar bjartsýnn og segir að veður sem þetta sé bara hluti af því að vinna í fjallinu. 

Blautt í Bláfjöllum.
Blautt í Bláfjöllum. Ljósmynd Einar Bjarnason

Færibandið í Kóngsgili fór mjög illa í óveðrinu í gær þrátt fyrir að það hafi verið fest betur niður en nokkru sinni áður. „Við setjum strappa á það á hverju kvöldi, yfirleitt þrjá til fjóra strappa en þeir voru átta núna,“ segir Einar. Þrátt fyrir varnaraðgerðir er beltið ónýtt. Búið var að panta nýtt belti sem vonandi verður komið á fyrir helgina. 

Hér er hægt að fylgjast með opnunartíma 

Skíðafæriband fyrir neðan skálann í Kóngsgili fór illa í óveðrinu.
Skíðafæriband fyrir neðan skálann í Kóngsgili fór illa í óveðrinu. Ljósmynd Einar Bjarnason
Ljósmynd Einar Bjarnason
Hurðin virðist hafa rifnað af geymsluskúrnum í Bláfjöllum.
Hurðin virðist hafa rifnað af geymsluskúrnum í Bláfjöllum. Ljósmynd Einar Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert