Jarðarmörk aðeins staðfest í 13% tilvika

Jökulsárlón. Jörðin Fell við jökulsárlón hefur verið mikið í fjölmiðlum …
Jökulsárlón. Jörðin Fell við jökulsárlón hefur verið mikið í fjölmiðlum vegna sölu hennar. Ekki eru til staðfestar upplýsingar um jarðarmörk nema um 13% íslenskra jarða. mbl.is/RAX

Á áttunda þúsund jarðir eru á Íslandi og einungis eru til staðfestar upplýsingar um jarðarmörk u.þ.b. 13% þeirra. Hjá flestum nágrannaþjóðum Íslands er aldagömul hefð fyrir uppmælingu landeigna eða jarða. Hér á landi byggja upplýsingarnar hins vegar í flestum tilfellum á skriflegum lýsingum í handrituðum landamerkjabókum frá því í kringum aldamótin 1900 sem voru gerðar að frumkvæði danskra yfirvalda, en bækurnar má finna á skrifstofum sýslumanna.

„Á Íslandi eru 7.642 jarðir skráðar í landeignaskrá og í dag eru til upplýsingar um afmörkun u.þ.b. 980 þeirra,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, deildarstjóri landupplýsingadeildar Þjóðskrár. Flest þessara gagna hafa vísun í uppdrætti sem staðfest hafa verið af skipulagsyfirvöldum, eða sem þinglýst hefur verið hjá sýslumönnum.

Landa- og fjörumörkin varða „sem á að bera í Hálfdánaröldu“

Jörðin Fell við Jökulsárlón var töluvert í fréttum á síðasta ári og kann svo einnig að vera á þessu ári þar sem hæstbjóðendur í jörðina hafa höfðað mál, þar sem þeir segja ríkið hafa beðið of lengi með að nýta forkaupsrétt sinn.

Gögnin sem söluupplýsingar Fells eru unnar út frá byggja á handskrifuðu skjali frá 1922, sem getur reynst nútímamanninum torvelt yfirlestrar. Þannig segir til að mynda í landamerkjaskráningu fyrir Fell að „[...] landa- og fjörumörk að utan milli Borgarhafnarhrepps og Ólafshrepps [sé] varða hlaðin í fjörunni vestan við hornið á nýgræðunum sem á að bera í Hálfdánaröldu uppi undir jökli.“. Hvorki Borgarhafnarhrepp né Ólafshrepp er að finna á kortum í dag og óvíst hvort varðan sem minnst er á standi enn óhreyfð.

Síðubrot úr Veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu sem byrjað var að …
Síðubrot úr Veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu sem byrjað var að rita í 1887. Jarðalýsingar byggja enn á slíkum bókum. Skjáskot/Veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu

Þótt ekki hafi komið upp deilumál vegna jarðarmarka Fells eru slíkar deildur nokkuð algengar að sögn Tryggva Más. „Það eru mýmörg dæmi um ágreiningsmál vegna þess að eignamörk jarða eru ekki til uppmæld,“ segir hann. „Ef ekki tekst að leysa úr slíkum ágreiningsmálum með góðu er farið með þau fyrir dómstóla.“  

Stutt skoðun á dómstólavefnum sýnir að slíkt gerist iðulega og hafa rúmlega 220 jarðardeilur endað fyrir dómstólum frá því 2006.

Kortlagningin á ábyrgð eigenda

Kortlagning eignamarka jarða er að sögn Tryggva Más fyrst og fremst á ábyrgð eigenda. Slík uppmæling á jörð er kostnaðarsöm og lög í dag fyrirskipa ekki að slík mæling sé gerð, nema skipta eigi jörðinni upp eða selja hluta hennar.

„Það er erfitt fyrir opinbera aðila að koma að kortlagningu eignamarka ef landeigendur eru ekki sammála um legu þeirra og slíkt verkefni gæti því fljótt orðið kostnaðarsamt,“ segir hann. „Ef landeigendur hafa frumkvæðið eru meiri líkur á að sátt skapist – enda eru hagsmunirnir fyrst og fremst landeigendanna.“

Nú á dögum gera sveitarfélög hins vegar kröfur um kortlagningu, þ.e. hnitsettan uppdrátt, þegar jörðum er skipt upp. Tryggvi Már segir fjármálastofnarnir sömuleiðis vera farnar að gera aukna kröfu um uppmælingu jarða áður en þær veita lán með veð í jörðunum.

Ekki eru til staðfestar upplýsingar um jarðarmörk nema um 13% …
Ekki eru til staðfestar upplýsingar um jarðarmörk nema um 13% íslenskra jarða. map.is

Verði forsenda í framtíðinni

Stefna stjórnvalda er líka að að uppmæling eignamarka verði í framtíðinni forsenda ráðstöfunar fasteigna, þ.e. hvort sem um er að ræða sölu, veðsetningu eða uppskiptingu. Búnaðarþing hefur að sögn Tryggva Más einnig ítrekað lagt fram bókun í þá veru og slíkt samræmist sömuleiðis stefnumörkun atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. „Þá hafa ýmsar ríkisstofnanir eins og Landmælingar Íslands, Vegagerðin, Ríkiseignir, Skipulagsstofnun, svo og einstök sveitarfélög, þrýst á betrumbætur í þessum efnum.“ 

„Fyrsta skref áður en slíkt gerist er hins vegar að að okkar mati að endurskoða lagaramma fasteignaskráningar. Svo þarf að veita fjármagn í verkefnið, þar sem ríki og sveitarfélög ganga á undan með góðu fordæmi við uppmælingu landeigna í þeirra eigu. Síðan mætti veita fjármagni til landshlutabundinna verkefna sem væru á forræði landeigenda sjálfra – t.a.m. í gegnum búnaðarsamböndin, sem hefur reynst vel,“ segir Tryggvi Már.

Hann segir Þjóðskrá Íslands hafa á liðnum árum vakið athygli á þörf á ákvæðum í lögum og reglugerðum um mælingar landeigna og kortlagningu þeirra og komið með tillögur í því sambandi.  Lítið hafi hins vegar þokast til þessa, en stofnunin geri sér þó vonir um að málaflokkurinn fái athygli hjá nýrri ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert