Berast enn ábendingar í máli Birnu

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir tölvuvert magn sýna og muna hafa …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir tölvuvert magn sýna og muna hafa verið send utan til sýnatöku og greiningar. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglu berast enn ábendingar í máli Birnu Brjánsdóttur, sem hún er að skoða. Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sem fer með rannsóknina á máli Birnu, sem fannst látinn í fjörunni við Selvogsvita 22. janúar. Meðal þess sem lögregla skoðar eru ábendingar frá fólki sem er staðkunnugt á því svæði þar sem talið er að Birna hafi farið í sjóinn.

„Þetta er eitt af þeim atriðum sem að við fáum upplýsingar um og sem að við skoðum,“ segir Grímur. Engin áform eru þó um frekari leit að vísbendingum með aðstoð björgunarsveita.

Fátt nýtt gerðist í máli Birnu um helgina. Maðurinn sem grunaður er um að vera valdur dauða hennar var síðast yfirheyrður  á föstudag og ekki liggur fyrir hvenær hann verður yfirheyrður næst.

Núverandi gæsluvarðhaldsúrskurður  yfir honum rennur út næsta fimmtudag og verður maðurinn þá búinn að vera í einangrun í fjórar vikur.  Ljóst er að rann­sókn máls­ins verður ekki lokið fyr­ir þann tíma, en Grímur segir þó enn ekki liggja fyrir hvort farið verði fram á framlengingu gæsluvarðhalds. „Það verður tekin ákvörðun um slíkt á næstu dögum,“ segir hann.

Réttarstaða hins skipverjans óbreytt

Búast má við við að rannsóknin taki nokkrar vikur til viðbótar, en lögregla vinnur nú að því að safna gögnum sem síðan verða send héraðssaksóknara. Lögregla og ákæruvald hafa 12 vikur frá handtöku til að gefa út ákæru.

Réttarstaða hins skipverjans á Polar Nanoq, sem sleppt var úr haldi eftir tveggja vikna gæsluvarðhald, hefur ekki breyst. Haft var eftir Grími í Morgunblaðinu á föstudag að hlutur skipverjans, sem hefur rétt­ar­stöðu grunaðs manns, verði greind­ur í gögn­um máls­ins. Því haldi réttastarstaða hans að öllum líkindum þar til ákæru­valdið fær málsgögn­in.

Töluvert magn sýna og muna sent utan til greiningar

Ekki liggja enn fyrir niðurstöður úr þeim sýnum sem lögregla sendi út til rannsóknar og vonast Grímur til að þær skili sér á næstu dögum. Hann segir lögreglu þó ekki hafa fengið neinar upplýsingar um hvenær þær liggi fyrir.

Rúmar 3 vikur eru nú frá því að þau voru sýni og munir voru send utan til sýnatöku og segir Grímur þann vinnslutíma vel geta verið eðlilegan. „Þessar rannsóknir geta verið flóknar og tekið tíma,“ segir hann og kveður um nokkurt magn muna og sýna að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert