Fundu þrettán málverk

Eitt stolnu verkanna eftir Karólínu Lárusdóttur.
Eitt stolnu verkanna eftir Karólínu Lárusdóttur.

„Við erum með helling af málverkum hérna,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, spurður um hvort rétt sé að verk eftir Karólínu Lárusdóttur hafi fundist við húsleit í gær.

Jóhann Karl segir ljóst að hluti verkanna sé eftir Karólínu en nokkrum ókláruðum verkum eftir hana var stolið úr geymslu við Vatnsstíginn í lok desember.

Þrettán málverk fundust við húsleitina í gær eftir að þjófurinn gaf sig fram við lögreglu. Fjölskylda Karólínu telur að sjö verkum hennar hafi verið stolið úr geymslunni og því mögulegt að þarna sé einnig að finna verk eftir aðra listamenn.

„Nú þurfum við bara að fá tæknideildina til að mæla þau og taka ljósmyndir. […] Við erum að reyna að finna út úr því hvaðan þau koma.“

Að sögn Jóhanns Karls vísaði maðurinn sem gaf sig fram á annan mann og er því talið að tveir menn hafi staðið að þjófnaðinum. Sá síðarnefndi er nú í haldi lögreglu.

„Það á eftir að yfirheyra hann og síðan verður þessu væntanlega skilað til eigenda.“

Stephen William Lárus Stephen, sonur Karólínu, segist ekki hafa fengið staðfestingu frá lögreglu um að um sömu verk sé að ræða en hann hefur þó verið látinn vita af fundinum.

„Ef þetta er rétt er ég að sjálfsögðu mjög ánægður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert