Vilja ekki vín í verslanir

mbl.is/Heiddi

Meirihluti landsmanna er andvígur því að áfengi verði selt í matvöruverslunum samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Mun meiri andstaða er við að sterk vín verði seld í matvöruverslunum en bjór og léttvín.

Þannig eru 74,3% andvíg því að sterk vín verði seld í matvöruverslunum en 15,4% því hlynnt. Hins vegar eru 56,9% andvíg að það sama eigi við um bjór og léttvín en 32,7% hlynnt.

Konur eru líklegri til þess að vera andvíg því að áfengi verði selt í matvöruverslunum en karlar og andstaðan hækkar eftir því sem fólk er eldra.

Meirihluti stuðningsmanna allra flokka er andvígur sölu sterks víns í matvöruverslunum en fleiri kjósenda Pírata, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar vilja hins vegar að heimilt verði að selja bjór og léttvín í slíkum verslunum en þeir sem leggjast gegn því.

Þannig vilja 58% kjósenda Viðreisnar leyfa sölu björs og léttvíns í matvöruverslunum en 33% vilja það ekki. 49% kjósenda Bjartrar framtíðar vilja það sama en 42% ekki. Þá vilja 48% kjósenda Pírata leyfa slíka sölu en 35% eru því andvíg.

Könnunin var gerð dagana 10.-15. febrúar 2017

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert