Allur Grindavíkurvegur hættulegur

Margir hafa kallað eftir úrbótum á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi enda …
Margir hafa kallað eftir úrbótum á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi enda hefur umferð um vegina aukist mikið á síðustu árum. mbl.is/Rax

Á fundi Grindavíkurbæjar og Vegagerðarinnar í morgun vegna Grindavíkurvegar og slysanna sem þar hafa orðið kom fram að vegurinn er hættulegur í heild sinni, ekki bara á ákveðnum stöðum.

Vegagerðin hefur unnið að greiningu á Grindavíkurvegi að undanförnu að ósk innanríkisráðuneytisins. Greint var frá fyrstu niðurstöðum hennar á fundinum í morgun.

Að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra Grindavíkur, voru honum og samráðshópi frá Grindavíkurbæ sýndar loftmyndir með slysapunktum frá Vegagerðinni þar sem kom í ljós að vegurinn er ekki bara hættulegur á einum eða tveimur stöðum.

„Þetta kom þannig séð ekki á óvart. Það er heilmikilla aðgerða þörf sem eru mjög brýnar fyrir okkar samfélag. Til þess þarf heilmikla peninga og það er næsta skref að reyna með einhverjum ráðum að fá fjárveitingu í þetta,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Greinargóður kynningarfundur

Fannar bendir á að fundurinn í morgun hafi fyrst og fremst verið kynningarfundur á báða bóga og ekki hafi staðið til að taka neinar ákvarðanir.

„Við tjáðum vegagerðarmönnum áhyggjur okkar og veittum þeim upplýsingar varðandi stöðuna hjá okkur. Ekki síður vorum við að leita eftir upplýsingum frá þeim um hvað kynni að vera hægt að gera og hvaða athuganir hefðu verið gerðar á öryggisatriðum og úrbótum á Grindavíkurvegi bæði til skemmri tíma og lengri,“ segir hann.

Fundurinn stóð yfir í tvær klukkustundir og var gagnlegur og greinargóður af hálfu Vegagerðarinnar, að mati Fannars.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra.
Jón Gunnarsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Funda með samgönguráðherra 

Varðandi stærri framkvæmdir á veginum nefnir hann að þær strandi á fjármögnun. Vegagerðin hafi ekki fjárveitingu til að breikka hann eða setja í verkefnið þær nokkur hundruð milljónir króna sem þörf sé á fyrir fyrstu lagfæringar.

Fram undan hjá Grindavíkurbæ er að hitta samgönguráðherra á miðvikudaginn í næstu viku. Einnig hafa bæjaryfirvöld hug á að leita til fjármálaráðherra og fjárveitingavaldsins um möguleika á fjármagni vegna endurbóta á veginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert